Due Date langvinsælust á Íslandi


Gamanmyndinni Due Date tókst það á Íslandi sem henni mistókst í Bandaríkjunum um helgina: að verða vinsælasta myndin í bíó. Á meðan Robert Downey Jr. og hinn burknaelskandi Zach Galifianakis þurftu að lúta í lægra haldi fyrir teiknaða ofurhetjugríninu Megamind vestanhafs var Due Date ótvíræður sigurvegari helgarinnar hér á landi.

Fékk Due Date meira en fjórfalda aðsókn myndarinnar í öðru sæti, hasarmyndarinnar RED, sem segir frá hundeltum leigumorðingjum á eftirlaunum. Um 7.000 manns fóru á Due Date á meðan RED náði um 1.700 manns í hús, sem er þó alls ekki slæmt. Í þriðja sæti varð svo þriðja nýja myndin, þrívíddarteiknimyndin Sammy’s Adventures.

Raunar voru þrjár þrívíddarteiknimyndir í sætum 3-6, því Legend of the Guardians, toppmynd síðustu helgar, varð fjórða, og Happily N’Ever After 2 náði sjötta sætinu aðra helgina í röð. The Social Network laumaði sér svo á milli þeirra í fimmta sætið. Eftir helgina er Feisbúkkmyndin komin í 20. sæti allra mynda á árinu í áhorfendafjölda.

Tvær aðrar myndir voru einnig frumsýndar um helgina. Woody Allen-myndin You Will Meet a Tall Dark Stranger klóraði sig inn í tíunda sætið en Stone, sem er með Robert De Niro, Edward Norton og Millu Jovovich í aðalhlutverkum, þurfti að sætta sig við 20. sætið.

Athygli vekur fjöldi mynda sem var í almennum sýningum um helgina, eða alls tæplega 30 talsins. Þetta er í mesta lagi, sérstaklega þar sem engin kvikmyndahátíð er í gangi. Með tilkomu Bíó Paradísar og Egilshallarbíós hefur salafjöldi í Reykjavík aukist mjög á síðustu mánuðum, eða úr 21 í 29. Það er því frábært að sjá að það leiðir af sér fleiri myndir sem hægt er að velja úr og vonandi að það haldi áfram.

Hvaða mynd sáuð þið um helgina? Hvað fannst ykkur?

-Erlingur