Tengslanetið á toppnum

Nýjasta mynd meistarans David Fincher, The Social Network smellti sér í toppsæti aðsóknarlista nýliðinnar helgar hér á Íslandi og náði fínustu aðsókn. Hafði hún betur en íslenska unglingamyndin Órói, en báðar þessar myndir hafa fengið afar góða dóma og þykja með betri myndum ársins. Tæplega 5.000 manns fóru á Tengslanetið, eins og hin íslenskaða IMDb-síða nefnir myndina, á meðan tæplega 3.500 litu Óróa augum frá föstudegi til sunnudags.

Önnur íslensk mynd var í þriðja sætinu, en Brim jók við sig aðsókn á milli helga um heilan þriðjung og sigldi fram úr myndunum The Town, Algjörum Sveppa og dularfulla hótelherberginu, Eat Pray Love og Dinner for Schmucks, sem röðuðu sér í næstu sæti.

Það er afar sérstakt og einstaklega gaman að sjá þrjár íslenskar myndir í einu á meðal 5 vinsælustu mynda landsins, auk þess sem ein í viðbót, Sumarlandið, er enn í sýningum aðeins neðar á listanum. Það er því sannarlega ekki komið haust í íslenskri kvikmyndagerð, þar sem enn er von á nokkrum íslenskum myndum fyrir jól. Sú fyrsta þeirra, heimildarmyndin Gnarr, kemur í bíó um miðjan nóvember, en það mætti líka telja Inhale íslenska, þar sem Baltasar Kormákur leikstýrir henni.

Eat Pray Love fór yfir 10.000 áhorfenda múrinn um helgina og er 41. myndin á Íslandi sem nær því síðan um síðastliðin jól. The Town og Dinner for Schmucks sitja svo rétt við 10.000 manna múrinn, auk þess sem fastlega má gera ráð fyrir því að þrjár efstu myndirnar um helgina nái einnig þessu takmarki. Því mun það takast eins og í fyrra að allar 50 vinsælustu myndir ársins (og fleiri til) nái yfir 10.000 áhorfendum, sem sýnir að bíómenningin á Íslandi er sprelllifandi.

Um næstu helgi koma svo spennumyndin Inhale, Óskarsbeitan The Kids Are All Right, gamanmyndin The Switch og fjölskylduteiknimyndin Konungsríki Uglanna (Legend of the Guardians) og slást um áhorfendur.

Kom þessi niðurstaða ykkur á óvart? Hvað sáuð þið um helgina (og hvernig fannst ykkur)? Og hvaða mynd eruð þið spenntust fyrir um næstu helgi?

-E.G.E