Þó svo að ég hafi ekkert nema jákvæða hluti að segja um Vesturport leikhópinn, þá eru hæfileikar þeirra ekki nógu öflugir til að geta haldið heilli kvikmynd á floti þess að innihaldið sé traust. Brim er í rauninni mynd sem gengur ekki út á nokkurn skapaðan hlut nema kannski að sýna hversu frábæra leikara (og tæknimenn) við íslendingar höfum. Hún reynir að vera lágstemmt drama sem gengur út á persónurnar, en það furðulega er að persónurnar eru flestar svo flatar og einfaldar að maður á erfitt með að tengjast þeim. Sumar fá heldur ekki neina dýpt og það er m.a.s. eins og myndin sé að gera það viljandi til að við sem áhorfendur fyllum sjálf upp í eyðurnar. En það er munur á því að bæta við túlkunum og þurfa að búa til karakterprófílana alveg sjálfur.
Þessi grautþunna saga sem við fylgjumst hér með virðist fókusa sérstaklega á átök, vanlíðu og önnur erfiði. Þarna hefði maður verið kominn með fínasta kokteil að góðu drama hefði myndin einhvers konar högg til að bjóða upp á. Út alla lengdina fannst mér eins og ég væri meira að *fylgjast* með átökunum frekar en að vera partur af þeim, og þar af leiðandi var ég rosalega *útúr* myndinni allan tímann. Mér var orðið svo sama um allt sem var í gangi á skjánum að ég fór meira að dást að tæknivinnslunni og frammistöðunum. Það skiptir líka svo miklu máli að persónurnar hjálpa manni að sogast inn í söguna, en sama hve mikið ég reyndi, þá átti ég skuggalega erfitt með að sýna þeim alvöru áhuga.
Mesta hrósið sem ég get hér gefið fer einmitt til leikaranna, sem gera óvenjulega mikið úr þunnum persónum, eða eins mikið og hægt er allavega. Maður fær þá tilfinningu að þeir vissu hversu ábótavant þær voru og gerðu þess vegna sitt besta til að krydda upp á þær. Annars var ég mest ánægður með Björn Hlyn og Ólaf Egilsson því þeirra persónur voru þær einu sem voru tvíhliða og sympatískar. Gísli Örn, Víkingur Kristjánsson, Ólafur Darri og Ingvar Sigurðsson eru fínir en hlutverkin þeirra eru svo brjálæðislega einhæf að hrósið kemst hvergi upp á hærra stig. Svo er Nína Dögg nokkuð góð sjálf en persónuþróun hennar fer það mikið í taugarnar á mér að það skyggir á frammistöðuna. Við fáum aldrei að vita neitt um hana almennilega eða kynnast henni. Ég held að þarna sé akkúrat ætlast til að við ráðum því sjálf, en mér finnst sú nálgun alls ekki virka fyrir þessa sögu því karakterinn er allan tímann svo áberandi lokaður og fjarlægur að það er nánast móðgun að segja ekki frá meiru en myndin gerir.
Það er erfitt að meta hvort það sé bara efnið sjálft sem misstígur sig eða einfaldlega leikstjórnin. Það vantar alveg kraftinn og umhyggjuna og þegar maður horfir á mynd sem gerir ekkert nema að sína persónur hangandi um í fiskveiðibát er það mjög stór mínus að maður njóti ekki samverunnar með þeim. Mér leiddist þó heldur ekki en það má eiginlega þakka metnaðarfullu útliti fyrir það ásamt flottri kvikmyndatöku, hljóðvinnslu og klippingu.
Vesturport hópurinn á hiklaust betri mynd skilið heldur en þetta.
5/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei