Nýtt á VOD

HrollvekjaSpennutryllirRáðgáta
Leikstjórn Corin Hardy
Söguþráður The Nun segir frá ungri nunnu, Irene, sem er ásamt prestinum Burke send til Rúmeníu að rannsaka dularfullt sjálfsmorð nunnu í hinu sögufræga Cârța-nunnuklaustri í suðurhluta Transylvaníu. Fljótlega eftir komuna þangað uppgötva þau Irene og Burke að hlutirnir eru sannarlega ekki með felldu í klaustrinu því þar hefur hin framliðna og meinilla nunna Valak tekið völdin ...
DramaSpennutryllir
Leikstjórn Jens Dahl
Söguþráður Mikael er sprengjusérfræðingur sem hefur verið handtekinn fyrir bankarán sem hann framdi ásamt a.m.k. tveimur Serbum sem einnig eru í haldi lögreglunnar. Hann dvelur nú á hótelherbergi og hefur samið við lögregluna um að bera vitni gegn vitorðsmönnum sínum fái hann 3 óskir uppfylltar. Hér er um að ræða sálfræðidrama þar sem hver fléttan rekur aðra uns áhorfendum verður heildarmyndin ljós.Í ljós kemur að þessar þrjár óskir sem lögreglan þarf að uppfylla til að hann skrifi undir vitnasamninginn eru 1) að fyrrverandi unnusta hans Camilla verði sótt og að hann fái að tala við hana á hótelherberginu og 2) að honum verði færður hlutur sem hann geymir í boxi í ákveðinni geymslu og 3) að hann fái að panta sér máltíð frá ákveðnu veitingahúsi. Og um leið og gengið er að óskum hans kemur í ljós hvaða tilgangi þær þjóna ...
DramaSpennutryllirRáðgáta
Leikstjórn Oren Moverman
Söguþráður Tveir bræður, Paul sem er sagnfræðingur og sögukennari, og Stan sem er stjórnmálamaður, mæla sér mót ásamt eiginkonum sínum Claire og Katelyn til að ræða um syni þeirra sem eru sekir um alvarlega árás á heimilislausa konu með þeim afleiðingum að hún dó. Til hvaða ráða geta þau tekið? Það sem byrjar sem kósý kvöldverður stigmagnast upp í annað og meira eftir því sem líður á kvöldið því á bak við glæp sonanna leynast fleiri leyndarmál sem brjótast nú fram með alvarlegum afleiðingum ...
GamanmyndDramaFjölskyldumynd
Leikstjórn Kriv Stenders
Söguþráður Sagan af Mick sem ungur að árum var sendur til dvalar hjá afa sínum sem bjó vestarlega í Ástralíu og lifði á því sem hann gat ræktað. Þar átti Mick eftir að finna lítinn hvolp sem hann nefndi Blue (vegna þess að hann var blár þegar hann fann hann) og tók með sér heim. Á milli þeirra myndaðist órjúfanleg vinátta og Blue átti eftir að sýna úr hverju hann var gerður.
BarnamyndTeiknimynd
Söguþráður Hver einasti dagur ber í skauti sér ný tækifæri fyrir Tappa til að kanna veröldina og undrin sem í henni leynast ásamt fjölskyldu sinni og vinahóp þar sem kætin og gleðin ræður ætíð för.
DramaStríðsmynd
Leikstjórn Aku Louhimies
Söguþráður Framhaldsstríðið, eins og Finnar kalla það sjálfir, var háð eftir Vetrarstríðið 1939– 1940 þegar Rússum tókst að leggja undir sig hluta Finnlands. Það var óviðsættanlegt fyrir Finna og markmiðið með Framhaldsstríðinu var að ná landinu aftur og hrekja Rússa til síns heima. Mörgþúsund ungir mennn sem höfðu ekki barist áður voru sendir til að mæta Rússunum ásamt eldri hermönnum sem höfðu meiri reynslu og vissu betur út í hvað verið var að etja þeim. Í myndinni kynnumst við nokkrum þessara hermanna sem komu úr öllum stéttum samfélagsins og þeirri baráttu sem þeir háðu við einhverjar erfiðustu aðstæður sem hugsast getur þar sem kuldinn og matarskorturinn voru síst erfiðari óvinir en Rússarnir sjálfir.
SpennumyndHrollvekjaSpennutryllirVísindaskáldskapurÆvintýramynd
Leikstjórn Shane Black
Söguþráður Þegar ungur einhverfur drengur að nafni Rory, sem hefur einstaka hæfileika á tungumálasviði, opnar fyrir slysni leið fyrir hinar grimmu og blóðþyrstu geimverur sem við þekkjum sem „Rándýrin“ til að snúa aftur til jarðar hefst barátta upp á líf eða dauða því Rándýrin ætla sér að gera út af við mannkynið.
SpennutryllirVísindaskáldskapur
Leikstjórn Jennifer Yuh Nelson
Söguþráður Eftir að dularfullur sjúkdómur sem lagðist eingöngu á börn þurrkaði út 98% fólks undir átján ára aldri ákváðu ríkisstjórnir heimsins að smala þeim sem lifðu faraldurinn af í einangrunarbúðir. Þar átti svo eftir að koma í ljós að hvert og eitt af eftirlifendum voru ekki bara ónæm fyrir sjúkdómnum heldur gædd óvenjulegum annars konar hæfileikum. Aðalsöguhetjan er hin 16 ára Ruby Daly sem var aðeins tíu ára þegar faraldurinn skæði gekk yfir. Hún er nú ein af þeim sem haldið er föngnum í einangrunarstöðinni en þar er unga fólkinu skipt í hópa eftir því hvaða hæfileikum þau búa yfir. Ruby, sem ræður yfir hæfileika til að stjórna hugsunum annarra, á síðan eftir að verða einn af leiðtogum þeirra unglinga sem sætta sig ekki við að vera í varðhaldi og einangrun og ákveða að gera uppreisn ...
GamanmyndDramaTónlistarmynd
Leikstjórn Brett Haley
Söguþráður Frank Fisher er ekkill sem rekur vinylplötuverslun í Brooklyn, en hún er á fallanda fæti og sennilega þarf Frank að loka henni fljótlega. Dóttir hans, Sam, er auk þess að fara að hefja nám í háskóla fjarri heimahögunum þannig að Frank sér fram á mjög breytta tíma. En þá gerist nokkuð skemmtilegt! Þau feðgin eru bæði liðtæk á hljóðfæri, hann á gítar og hún á hljómborð. Kvöld eitt fær Frank Sam til að djamma með sér og úr verður flott lag sem þau eyða svo nóttinni í að taka upp. Án vitneskju Sam ákveður Frank að hlaða laginu inn á margmiðlunarsíður og viti menn, það slær í gegn og byrjar að heyrast á útvarpsstöðvunum áður en langt er um liðið. Þetta gjörbreytir stöðu Franks sem ákveður að reyna að fá Sam til að fresta náminu og stofna frekar með sér hljómsveit ...
GamanmyndDrama
Leikstjórn Shana Feste
Söguþráður Þegar hinum aldraða Jack er sagt upp vistinni á elliheimilinu vegna grasreykinga og einbeitts vilja til að sveigja aðra vistmenn heimilisins inn á braut glæpa neyðist dóttir hans Laura til að finna honum nýjan dvalarstað. Sá gamli, Jack, lætur sér þetta allt í léttu rúmi liggja enda gamall hippi og þegar Laura ákveður ásamt syni sínum að aka honum til systur sinnar sem býr hinum megin á landinu opnast möguleiki á alls konar ævintýrum.
Hrollvekja
Leikstjórn Gregory Plotkin
Söguþráður Nokkur ungmenni ákveða að skella sér á svokallaða Hell Fest en það er skemmtigarður með hrollvekjuívafi sem ferðast um Bandaríkin og hefur nú verið settur upp í nágrenni heimabæjar þeirra. Kvöldið byrjar vel eða allt þar til ljóst verður á að meðal gestanna er raunverulegur morðingi.
SpennutryllirGlæpamynd
Leikstjórn Olivier Marchal
Söguþráður Antoine Roca er í miklum fjárhagsvanda og sér fram á að missa allt sem hann hefur byggt upp finni hann ekki fjármagn. Þegar hann kemur fyrir tilviljun auga á veilu í söluskattskerfi Evrópusambandsins ákveður hann að nýta sér hana, og endar á því að græða milljónir. En fyrst þarf hann að safna saman réttu mönnunum.
DramaSögulegÆviágrip
Leikstjórn Wash Westmoreland
Söguþráður Sidonie-Gabrielle Colette fæddist árið 1873 og giftist árið 1893 rithöfundinum og útgefandanum Henry Gauthier-Villars. Hann hvatti hana til að skrifa sögur og úr varð að Colette skrifaði fjórar bækur um unglingsstúlkuna Claudine sem urðu mjög vinsælar. Vandamálið var að Henry hafði gefið sögurnar út í eigin nafni og við það gat Colette ekki sætt sig til lengdar. Eftir velgengni Claudine-bókanna upp úr aldamótunum 1900 neitaði hún að skrifa meira undir nafni eiginmanns síns. Það tók hann hins vegar ekki í mál, reyndi hvað hann gat til að fá Colette til að skipta um skoðun og í gang fór atburðarás sem skók franska samfélagið ...
BarnamyndTeiknimynd
Söguþráður Nils Holgersson er latur strákur og hrekkjóttur og vondur við dýrin á bænum. Þegar dvergálfur leggur á hann álög svo hann breytist í lítinn álf sjálfur þarf hann að endurmeta viðhorf sín og læra að breyta hegðun sinni. Þessi útgáfa inniheldur sögur af ævintýrum Nils Holgerssonar þar sem hann ferðast heilt sumar á baki gæsa og kynnist mörgum nýjum svæðum og dýrunum sem þar búa. Sum eru góð en sum geta verið hættuleg og það á eftir að reyna verulega á Nils í samskiptum við þau.
Gamanmynd
Leikstjórn Malcolm D. Lee
Söguþráður Teddy Walker er sölumaður af guðs náð en á við þann vanda að stríða að hann hætti í framhaldsskóla á sínum tíma og tók aldrei lokaprófið. Af þeim sökum getur hann ekki fengið starf þar sem launin eru nógu mikil til að hann geti stofnað fjölskyldu með sinni heittelskuðu Lisu. Og hvað gera menn þá? Jú ... menn fara auðvitað í kvöldskóla og freista þess að ná prófinu þótt seint sé. Vandamálið í tilfelli Teddys er hins vegar að hann þjáist af öllu því sem kemur í veg fyrir að hann geti lært, þ. á m. bæði les- og skrifblindu auk þess sem hann er hræddur við tölur og getur ekki leyst einföldustu stærðfræðidæmi. Honum til happs er að kennarinn hans í kvöldskólanum, Carrie, er ekkert blávatn og sættir sig ekki við annað en að nemendur hennar nái tilskildum árangri ...
Drama
Leikstjórn Marc Turtletaub
Söguþráður Agnes er miðstéttarkona sem býr með eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra í úthverfi stórborgar. Lífið er orðið að rútínu hjá Agnesi þar sem hún gerir sömu hlutina á hverjum degi, þrífur, þvær og eldar og passar að allt sé í röð og reglu þegar eiginmaðurinn og börnin koma heim. Þessi rútína byrjar hins vegar að fara úr skorðum þegar Agnes fær púsluspil að gjöf. Agnes uppgötvar að hún hefur það í sér að púsla og á mun auðveldara með það en aðrir að koma auga á réttu púslin í hrúgunni. Þetta leiðir hana í leit að meira krefjandi púslum sem aftur leiðir til þess að hún kynnist púsluspilsmeistaranum Robert sem er einmitt að leita sér að félaga til að taka þátt í stóru púsluspilsmóti. Agnes slær til, en heimavið hrannast vandamálin upp og þau þarf líka að leysa ...
GlæpamyndVísindaskáldskapurRáðgáta
Leikstjórn Andrew Niccol
Söguþráður Anon gerist í framtíðinni þegar öllum upplýsingum um alla hefur verið safnað í gagnabanka sem nefnist The Ether. Um leið og þessi gagnabanki hefur svipt jarðarbúa einkalífinu hefur hann orðið til þess að glæpum hefur svo gott sem verið útrýmt enda getur enginn falið sig lengur - eða hvað? Lögreglumaðurinn Sal Frieland vinnur við að handsama þá sem þó gerast brotlegir við lögin. Starf hans er auðvelt því hann er gæddur skynjurum sem gera honum kleift að fá allar upplýsingar samstundis um alla sem hann lítur á. Honum bregður því mjög í brún þegar hann hittir konu sem hann hefur engar upplýsingar um – á sama tíma og óþekktur aðili fremur sitt fyrsta morð ...
DramaHrollvekjaGlæpamynd
Leikstjórn Ben Young
Söguþráður Vicki Maloney er ung kona sem eftir að hafa lent í rifrildi við móður sína fer í fússi út og setur stefnuna á samkvæmi með vinum í nágrenninu. Á leiðinni þangað er henni boðið far af vinalegu fólki, John og Evelyn, sem reynast þó úlfar í sauðargæru þegar á reynir og í raun snarbilaðir mannræningjar. Þeim John og Evelyn tekst sem sagt að ræna Vicki og hlekkja hana fasta í húsi þar sem þau byrja að ganga í skrokk á henni og svívirða. Vicki verður fljótlega ljóst að henni verður ekki bjargað og ef henni tekst ekki að sleppa úr prísundinni upp á eigin spýtur mun hún enda með því að þau John og Evelyn myrða hana. Á sama tíma hefur móðir hennar örvæntingarfulla leit að henni en á erfitt með að fá lögregluna í lið með sér þar sem svo skammur tími er liðinn frá hinu meinta hvarfi ...
BarnamyndTeiknimynd
Söguþráður Mía og ég eru tölvuteiknaðir 23 mínútna þættir um hina tólf ára gömlu Míu sem í gegnum gjöf frá föður sínum, sem var uppfinningamaður, getur ferðast inn í álfa- og ævintýralandið Sentópíu þar sem hún breytist sjálf í álfastelpu. Í Sentópíu búa bæði álfar og margs konar furðudýr svo sem einhyrningar sem Mía tekur miklu ástfóstri við enda skilur hún mál þeirra og þeir hennar. Ásamt þeim og öðrum vinum sínum lendir Mía síðan í margs konar skemmtilegum ævintýrum.
BarnamyndTeiknimynd
Söguþráður Hér segir frá hinum ókvænta Davíð sem tekið hefur að sér að ala upp sex íkornakrakka, þrjá stráka og þrjár stelpur. Það gengur því að sjálfsögðu mikið á á heimilinu því íkornakrakkarnir eru hugmyndaríkir með eindæmum og óhræddir við að feta nýjar slóðir í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur. En stundum þrýtur Davíð þolinmæðina og þegar það gerist kallar hann yfir sig: „ALVINNN!!!“