Potter langefstur á Íslandi aðra helgina í röð

Það var ekki jafnmikil spenna á Íslandi og í Bandaríkjunum um hvaða mynd næði að hirða toppsætið. Harry Potter and the Deathly Hallows – Part I var óskoraður sigurvegari aðra helgina í röð.

Í þetta sinn fóru um 6.500 áhorfendur í bíó til að fylgjast með ævintýrum Harry og félaga, og eru nú um 26.000 manns búnir að sjá þá mynd í bíó, og það á aðeins 10 dögum.

Aðra vikuna í röð varð þrívíddarbrjálæðið Jackass 3D í öðru sæti. Þrívíddin gerði það að verkum að sú mynd endaði fyrir ofan spennumyndina The Next Three Days, sem var frumsýnd um helgina, þrátt fyrir að áhorfendafjöldi hafi verið mjög svipaður, eða rúmlega 1.000 manns.

Jólateiknimyndin Niko og leiðin til stjarnanna var einnig frumsýnd um helgina og náði fimmta sætinu á eftir Due Date, á meðan spennugrínið RED hækkaði sig um heil tvö sæti á milli vikna og náði því sjötta.

Þriðja frumsýnda myndin um helgina, sögulega dramaepíkin Agora frá spænska meistaranum Alejandro Amenábar, gerði engar rósir um helgina og þurfti að sætta sig við 14. sætið.

Efstu tuttugu myndirnar getið þið séð á vinsældalistahlekknum til vinstri á síðunni.

Hvaða mynd sáuð þið um helgina? Og hvernig fannst ykkur?

-Erlingur Grétar