Svalasti náunginn á Jörðinni

Það er ekki víst að allir Íslendingar þekki hasarþættina The Fall Guy sem voru í sjónvarpi í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar en eins og Total Film greinir frá þá er auðvelt að sjá efnivið í endurgerð þegar rýnt er í söguþráð þáttanna. Þar leikur Lee Majors (The Six Million Dollar Man) Colt Seavers, áhættuleikara sem notar hæfni sína í faginu í aukavinnu sem mannaveiðari.

Þetta hljómar líka fullkomlega fyrir leikstjóra The Fall Guy kvikmyndarinnar sem komin er í bíó á Íslandi og um allan heim. Leikstjórinn, David Leitch, er fyrrum áhættuleikari sem sneri sér að leikstjórn og hefur komið að myndum eins og John Wick, Atomic Blonde, Deadpool 2, Fast & Furious Presents: Hobbs & Shaw og Bullet Train. Hann segir Total Film að hann hafi stokkið á tækifærið þegar það gafst.

The Fall Guy (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.3
Rotten tomatoes einkunn 89%

Áhættuleikarinn Colt Seavers, sem nýlega lenti í slysi sem hefði getað bundið enda á ferilinn, þarf að elta uppi týnda kvikmyndastjörnu, leysa úr samsæri og reyna að ná aftur í draumadísina á sama tíma og hann verður að mæta í vinnuna dag hvern. Gæti eitthvað af þessu ...

Ólst upp við þættina

Leitch segist hafa alist upp við að horfa á þættina í sjónvarpinu. „Colt Seavers var svalasti náunginn á Jörðinni – hann var ekki að leita að sviðsljósinu, en bjó yfir áhugaverðum hæfileikum því hann var áhættuleikari.“

Þá segir Leitch að fyrir sína kynslóð áhættuleikara hafi þættirnir leitt til þess að áhættuleikararnir vildu skilgreina betur hverskonar vinna þetta var eiginlega sem þeir voru að vinna.

Breyttist og þróaðist

Leitch segir að verkefnið hafi breyst aðeins á framleiðslutímanum og þróast. „Þetta er eiginlega upprunasaga mannaveiðarans. Hann er á leið í sinn fyrsta leiðangur að leita mann uppi. En svo fór þetta að þróast og við réðum Emily Blunt í hlutverk Jody, og þá … fer ástarsagan að taka á sig mynd. Og hver vill ekki fá alvöru Hollywood ástarsögu í spennumynd?“

Áhættuleikarar sýna snilli sína á frumsýningu myndarinnar

Um hlutverk leikstjórans Jody segir Emily Blunt að persónusköpunin hafi verið samvinnuverkefni. „Í upprunalega handritinu var hún frekar vægðarlaus og harður leikstjóri,“ segir Blunt. „En ég held að fyrir mig þá er alltaf áhugaverðara að leika einhvern sem er í aðstæðum sem hann ræður ekki við.“

Þá segir Blunt að persónan sé innblásin af Barbie leikstjóranum Greta Gerwig. „Hafandi hlýjuna og útgeislunina, þá held ég að það sé talsvert af Gretu þarna,“ segir Blunt. „Jody var blanda af nokkrum aðilum sem ég hitti og ég tók smávegis frá hverjum og einum.“