Bara konur í endurgerð Ocean´s Eleven

Sandra Bullock verður í aðalhlutverki í nýrri Ocean´s Eleven-mynd þar sem konur verða í öllum helstu hlutverkunum. Til stendur að endurgera allar þrjár myndirnar. OUR BRAND IS CRISIS

Þetta kemur fram í frétt The Playlist.

George Clooney, sem lék í öllum þremur Ocean´s-myndunum, verður framleiðandi en hann lék á móti Bullock í Gravity. Clooney var einnig framleiðandi nýjustu myndar Bullock, Our Brand is Crisis, sem verður frumsýnd vestanhafs um helgina.

Gary Ross, sem hefur leikstýrt Hunger Games, mun leikstýra nýju Ocean´s Eleven-myndinni. Steven Soderbergh, sem leikstýrði Oceans-myndunum, hefur veitt endurgerðinni blessun sína.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem mynd er endurgerð með konum í öllum helstu hlutverkum. Ghostbusters er væntanleg í bíó með þær Melissa McCarthy og Kristen Wiig úr Bridesmaids í aðalhlutverkum ásamt þeim Kate McKinnon og Leslie Jones.