Veronica Corningstone staðfest í Anchorman 2

Glöggir áhorfendur tóku eftir því í fyrstu stiklunni fyrir Anchorman: The Legend Continues að þar vantaði einn meðlim fréttateymis Channel 4 stöðvarinnar. Veronica Corningstone, sem var snilldarlega leikin af Christina Applegate, var ekki með:

Stiklan var tekin upp í snarhasti nú í vor til þess að vera sýnd með The Dictator – myndin sjálf fer í tökur í febrúar 2013 – og á þeim tímapunkti var aðeins búið að staðfesta fréttaþulina fjóra til baka. Í viðtölum hafði leikstjórinn Adam Mckay þó látið það í ljós að ætlanir væru uppi um að fá Applegate í myndina, og nú hefur talsmaður leikkonunar staðfest að hún snúi aftur.

Að mínu mati eru þetta ekkert nema góðar fréttir. Umtalsverður hluti hjartans í fyrri Anchorman myndinni kom frá persónu Applegate, og mér hefði fundist það frekar sorglegt að skrifa hana út. Sá ofnotaði vani að skipta út kvenpersónum í framhaldsmyndum (a la James Bond) virkar alls ekki alltaf vel og þó ég hefði alltaf borgað mig inn á aðra mynd um Ron Burgundy er gott að vita að Anchorman: The Legend Continues mun ekki falla í þá gryfju.