The Hateful Eight átti að vera framhald Django

Vestrinn The Hateful Eight átti upphaflega að vera framhald Django Unchained. Þetta sagði leikstjórinn Quentin Tarantino í samtali við AceShowbiz.

the_hateful_eight_8

Hann bætti við að persóna Samuel L. Jackson í The Hateful Eight hafi upphaflega átt að vera Django, aðalpersóna Django Unchanied.

„Ég hafði ekki skrifað skáldsögu áður og mig langaði að prófa að skrifa Django-bók. Á þeim tíma var hún kölluð Django in White Hell. Í staðinn fyrir Major Warren [persónu Jackson í The Hateful Eight] átti þetta að vera Django,“ sagði Tarantino.

„Þegar ég var að kynna til sögunnar svona grófar persónur í þessari mynd og vissi að jafnvel fleiri myndu bætast í hópinn hugsaði ég með mér: „Það sem passar ekki í þessu dæmi er Django. Ég verð að losa mig við hann“,“ sagði hann.

Búið er að flýta almennum frumsýningardegi The Hateful Eight vestanhafs. Í stað þess að fara í bíó 8. janúar verður hún þess í stað frumsýnd á nýársdag.