Allar myndir Tarantino – Frá verstu til bestu

Í tilefni af útkomu The Hateful Eight hefur vefsíðan Digital Spy raðað kvikmyndum Quentin Tarantino í röð frá þeirri verstu til þeirrar bestu.

Sitt sýnist hverjum um í hvaða röð myndirnar eiga að vera en hérna er engu að síður listi Digital Spy með röksemdafærslum síðunnar:

9. Death Proof (2007)

DeathProof-Still_003

Án efa betri en fylgimynd hennar, Planet Terror eftir Robert Rodriguez sem flestir hafa gleymt. Þetta er botninn hjá Tarantino. Morðvopnið er hinn sterkbyggði bíll Kurt Russel en Death Proof lítur betur út á pappírnum en á hvíta tjaldinu.

 8. Kill Bill: Volume 2 (2004)

kill-bill-vol-2-2004-40-g

Þrátt fyrir að í Volume 2 fari minni tími í að kynna persónur til sögunnar, illmennin séu betri (við fáum loks að sjá David Carradine sem Bill), og lokakaflinn nái hæstu hæðum, er hún samt verri helmingurinn af myndunum tveimur.

7. Django Unchained (2012)

django_jamie_foxx

Síðustu myndir Tarantino hafa nálgast fjóra tímana sífellt meira og eflaust hefði mátt stytta þær eitthvað. Django er eins spennandi, töff og blóðug  og þú hafðir vonað. En hana vantar sömu persónugerðina með safaríku smáatriðunum sem finna má í bestu myndum QT.

6. The Hateful Eight (2015)

the_hateful_eight_8

Löng? Já. Æðisleg? Ójá. Blóðug eins og hjá slátrara? Án efa. Ef þú ert tilbúinn til að sökkva þér í morðgátu QT í kofa úti í skógi þá er þarna að finna hnyttin samtöl, flotta kvikmyndatöku og eina bestu frammistöðu Samuel L. Jackson.

5. Inglorious Basterds (2009)

inglourious-basterds

Basterds er metnaðarfull og vel gerð mynd. Minnir á Pulp Fiction þegar leikaraliðið er annars vegar og þegar hoppað er á milli kafla. Þetta er djörf fantasía úr síðari heimsstyrjöldinni sem blandar fáránleika saman við alvöru málefni.

4. Kill Bill: Volume 1 (2003)

kill-bill

Endurkoma Tarantino á hvíta tjaldið eftir sex ára hlé var eins langt frá síðustu mynd hans, Jackie Brown, og mögulegt var. Fyrri kafli Kill Bill er djarfur, kraftmikill og dæmi um sannan kvikmyndastíl. Hún er stundum sundurleit en alltaf hrífandi.

3. Jackie Brown (1997)

Jackie-Brown

Stundum nefnd sem þroskaðasta mynd Tarantino. Þessi spennumynd er ótrúlega nákvæm og áhugaverð rannsókn á ólíkum persónugerðum. Jackie Brown er eina myndin sem er ekki gerð eftir handriti Tarantino.

 2. Pulp Fiction (1994)

Pulp_Fiction_1_travolta_jackson

Flestir telja þessa þá bestu frá Tarantino og hún er vissulega hans þekktasta. Allt er þetta gert á svo kraftmikinn og snjallan hátt að annað hvert atriði er sígilt. Þegar horft er oftar á myndina sér maður betur að það vantar upp á innihaldið en stíllinn er algjörlega magnaður.

1. Reservoir Dogs (1992)

Reservoir-Dogs-Movie-Suits-Sunglasses-Picture

QT er bestur þegar hann gerir einfalda hluti, hefur úr litlum peningum að moða og lítinn tíma. Reservoir Dogs er 99 mínútur af hnökralausri sögu, hráu umhverfi og uppbyggingu þar sem leikararnir eru drifkrafturinn. Sjónarhorninu er beint að samtölunum og leikararnir leggja sig alla fram.