Kastljós: Sergio Corbucci (2. hluti af 3)

 

NAVAJO JOE (1966)

Í síðasta innslagi um ítalska spaghettívestraleikstjórann Sergio Corbucci minntist ég á að Django Unchained (2012) eftir Quentin Tarantino væri mögulega fyrsti vestrinn með blökkumanni í aðalhlutverki. Sannarlega er alltaf vafasamt að koma með nokkurs konar yfirlýsingar um „fyrsta“ hitt eða þetta og skiljanlega gerði lesandi athugasemd við þessa staðhæfingu, í ljósi þess að t.d. er blökkumaður í aðalhlutverki í grín-vestra Mel Brooks, Blazing Saddles (1974). Engu að síður hafa viðbrögð pressunar Vestanhafs við nýjustu mynd Tarantinos að miklu leyti snúist um þessa hlið málsins, líkt og heyra má í viðtölum og almennu spjalli við aðalleikara og leikstjóra hér. Jamie Foxx er kannski ekki fyrsta svarta aðalhetjan innan vestraformsins, en líklega hafa málefni og (óbeint) réttindabarátta svarta aldrei verið jafnáberandi í meginstraumsvestra áður.

Enn og aftur minni ég á að þetta er skrifað að myndinni óséðri, en miðað við þá umfjöllun sem ég hef séð og heyrt um Django Unchained mun t.d. ástarsagan sem stendur fyrir miðju myndarinnar vera óvenju einlæg miðað við heildarverk Tarantinos og enn fremur hef ég heyrt því fleygt að ákveðinn stigsmun sé að finna á því ofbeldi sem lagt er á þrælana og svo því sem beint er gegn þrælahöldurunum: hið fyrra er sannarlega hrottalegt, en framsett á „alvörugefinn“ hátt og án þess að færast beinlínis yfir í ýkjur, á meðan hið síðara ber vott um hina yfirgengilegu ofbeldisgleði sem Tarantino er frægur fyrir. Samkvæmt viðtölum við leikstjórann er þorri ofbeldisins gagnvart þrælunum byggður á raunverulegum heimildum, enda raunveruleikinn mun ógeðfelldri en nokkuð sem hægt væri að túlka í kvikmynd.

Kynþáttahyggja í Hollywood

Umræðan um Django Unchained sem einkar „svartan“ vestra er því ekki sprottin upp úr þurru, hvort sem hann er sá fyrsti eða ekki. Sem fyrr segir lék Cleavon Little annað aðahlutverkið (á móti Gene Wilder) í Blazing Saddles, en einnig voru a.m.k. 14 vestrar framleiddir í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum sem hluti af hinni svokölluðu „blaxploitation“-bylgju (kvikmyndageiri sem Tarantino hefur löngum elskað). Allar snúast þessar myndir um rasisma á einn eða annan hátt. Mynd Brooks gerir grín að rasískum hefðum Hollywood með því að gera Little að lögreglustjóra í al-hvítum bæ og nota kynþáttahatur sem uppsprettu húmors á afar frumlegan hátt. Blaxploitation-myndirnar snerust um að skapa mótvægi við ráðandi stefnur og strauma í Hollywood þar sem svartir komu lítið við sögu sem aðalpersónur og þessir fjórtán vestrar sem voru framleiddir á sínum tíma voru hluti af mun stærra samhengi réttindabaráttu svartra innan poppmenningarinnar. Myndirnar voru aðallega gerðar fyrir svarta áhorfendur og rötuðu sjaldnast inn í meginstraum Hollywood-markaðarins. Margir téðra blaxploitation-vestra fengu t.a.m. litla dreifingu og sumir hafa varla sést síðan þeir komu út.

Mótspyrna gegn aðskilnaðarstefnu innan kvikmyndageirans var ekki ný af nálinni á áttunda áratugnum. Löngu fyrir tíð blaxploitation-mynda var til heill iðnaður tileinkaður svartri kvikmyndagerð, þar sem myndir voru gerðar af blökkumönnum fyrst og fremst fyrir aðra blökkumenn sem áttu sér engar fyrirmyndir í meginstraumi Hollywood utan staðalmynda og þjónustuhlutverka. Þessi hluti bandarískrar kvikmyndasögu er mörgum ókunnur, en fjallað er vandlega um efnið í afar áhugaverðri heimildamynd, In The Shadow of Hollywood: Race Movies and the Birth of Black Cinema (2007). Aðskilnaðarstefna og upphafning hvítra leikara hefur löngum loðað við meginstraumskvikmyndagerð og í raun er aðeins tiltölulega nýlega, miðað við kvikmyndasöguna, að sú stefna hefur tekið að missa tökin á markaðnum. Reyndar halda margir því fram að svipuð stefna lifi enn óbeint í Hollywood nú á dögum, þar sem aðalhetjur séu næstum undantekningalausar hvítir karlmenn (og ekki konur, en það er efni í annan pistil) og að allir aðrir fái einungis að vera með gegni því skilyrði að þeir haldi sig við aukahlutverkin.

Mögulega hefur Django Unchained átt svo greiða leið inn í meginstrauminn sem raun ber vitni vegna þess að leikstjórinn er hvítur – ég get svo sem ekkert sagt um það – en hvítur bakgrunnur leikstjórans hefur engu að síður orðið ágreiningsefni í skrifum Vestanhafs, fyrst og fremst varðandi spurningar um hvort hægt sé að líta á myndina sem raunverulegt innlegg í umræðu um kynþáttahyggju og hvort ofbeldisfantasía Tarantinos sé á annað borð fær um að nálgast efnið á réttlátan hátt, án þess að skrumskæla eða jafnvel gera lítið úr sögu þrælahalds í Bandaríkjunum. Sumir fagna líkamleika og hráleika verksins og segja hana t.d. betri mynd um þrælahald heldur en Lincoln eftir Spielberg á meðan aðrir sjá ekkert skylt með myndinni og menningarsögu svartra. Leikstjórinn Spike Lee olli töluverðu fjaðrafoki í kringum frumsýningu myndarinnar með því að neita að sjá hana og segja verkið móðgandi við forfeður sína. (Í þessu samhengi er áhugavert að líta til þess að Tarantino er þriðji hvíti stórleikstjórinn á skömmum tíma sem gerir mynd tengda réttindabaráttu svartra, en hinir eru Spielberg með Lincoln og George Lucas með Red Tails – en það er svo sem líka efni í annan pistil).

Hamhleypur á hvíta tjaldinu

Eitt er að neita fólki af ákveðnu litarhafti um hlutverk í kvikmyndum, en annað er síðan að ráða hvítt fólk til að leika téð hlutverk í gervi og farða. Í upphafi 20. aldarinnar var venjan að láta hvítt fólk leika „svartmálað“ (e. „blackface“) í stað þess að ráða til þess blökkumenn. Frægasta dæmið er líklega leikarinn og skemmtikrafturinn Al Jolson, en hann kom iðulega fram svartmálaður. Þessi hefð lagðist blessunarlega af eftir því sem leið á öldina (og þykir ákaflega móðgandi nú á dögum), en hvítir héldu áfram að setja sig í svipuð gervi þegar við kom þjóðfélagshópum sem áttu ekki greiða leið í aðalhlutverk innan Hollywood-maskínunnar. Eftirminnilegur er aulahrollurinn sem fylgir því að sjá Charlton Heston leika mexíkana í annars frábærri mynd Orson Welles, Touch of Evil (1958), en slík gervi voru einkar algeng innan bandarískra vestra þar sem hvítir leikarar voru látnir leika innfædda. Sem dæmi má nefna Burt Lancaster í Apache (1954) og Charles Bronson í Once Upon A Time in the West (1968), en einnig ber að nefna kvikmyndir þar sem nauðsynlegt þótti að hafa hvíta persónu sem miðjupunkt sögunnar, þrátt fyrir að myndin fjalli um baráttu indíána, svo sem Little Big Man (1970) og Dances with Wolves (1990).

Eitt þekktasta dæmið um kynþáttahyggju hvað varðar aðalhlutverk í bandarískum meginstraumi, og þá sérstaklega í vestrum, er sjónvarpsserían Kung Fu. Á áttunda áratugnum var Bruce Lee að undirbúa seríu sem átti að heita The Warrior og fjalla um kung fu meistara sem fór um Villta Vestrið og beitti þar brögðum sínum. Seríunni var hafnað vegna þess að það þótti áhætta að eyða peningum í seríu með kínverskri aðalpersónu. Stuttu síðar birtist serían Kung Fu með David Carradine í aðalhlutverki og sama eða svipuðum söguþræði. Persónan var gerð hálf-kínversk, hálf-bandarísk, og þar með nægilega “framandi” til að uppfylla kröfur söguþráðarins en nægilega “kunnuglegur” til að uppfylla kröfur framleiðandanna. Slíkar frásagnir kunna að virka gamaldags og auðvelt er að hlæja að fáránlegu plakati hér að ofan sem sýnir Burt Lancaster í fullum Apache-skrúða, en svipuð dæmi er enn að finna nú á dögum, enda hefur lífleg umræða farið í gang í kringum væntanlega mynd um The Lone Ranger (2013), þar sem Johnny Depp fer með hlutverk indíánans Tonto.

Átti þessi pistill ekki að fjalla um Navajo Joe?

Ástæðan fyrir þessum útúrdúr í umfjöllun minni um verk Sergio Corbucci er til að staðsetja verk hans menningarlega og kvikmyndafræðilega út frá söguefni myndarinnar. Sjálfur sagði Corbucci Navajo Joe vera sögulega rétta og rammpólitíska framsetningu á markvissri útrýmingu Bandaríkjamanna á innfæddum indíánum N-Ameríku, en eins og Howard Hughes bendir á í bók sinni Once Upon A Time in the Italian West, þá fór Corbucci að boðskapnum á sinn sérstaka hátt: með söguhetju sem drepur rosalega mikið af fólki (bls. 82). Ofbeldi sem söluvara – ásökun sem Tarantino stendur stöðugt frammi fyrir – er í fyrirrúmi í þessari mynd Corbucci, þrátt fyrir að bakgrunnurinn sé sannarlega þrælpólitískur. Að þessu leyti svipar henni til Django Unchained og þar af leiðandi er þess virði að tengja myndirnar í gegnum þá umræðu um rasisma sem hefur myndast í kringum mynd Tarantinos. Ef Navajo Joe væri gerð í dag myndi hún eflaust kynda undir svipuðu báli, enda snerta báðar myndir á öllum þeim punktum sem ég hef talið upp í þessum pistli hingað til. Sjálfur játar Tarantino að kynþáttahatur sem umfjöllunarefni Django Unchained sé í beinu framhaldi af þeim pælingum sem Corbucci stóð í með sínum vestrum. Í nýlegu viðtali við The Guardian segist Tarantino sækja beint í brunn forvera síns og minnist bæði á Django og Navajo Joe sem dæmi um það að Corbucci hafi „alltaf verið að kljást við kynþáttahatur“ í myndum sínum.

Í Django er kynþáttahatur hluti af sögunni, þar sem stríðandi fylkingar eru annars vegar mexíkóskir uppreisnarsinnar og hins vegar meðlimir Ku Klux Klan, en kynþáttahatrið er þannig séð ekki í aðalhlutverki. Í Navajo Joe er kynþáttahatrið hins vegar í forgrunni, en þar segir frá hópi (hvítra) illvirkja sem safna höfuðleðrum af indíánum og víla ekki fyrir sér að myrða miskunnarlaust fyrir verðlaunafé. Leiðtogi hópsins, Duncan, lætur myrða eiginkonu Navajo Joe, sem sendir aðalhetjuna í hefndarleit. Þetta er klassískur hefndarvestri og meðal vinsælli mynda Corbuccis, þótt hún sé ekki endilega sú besta. Það sem gerir Navajo Joe ólíkan mörgum svipuðum hefndarvestrum er fyrst og fremst sviðsetningin og samhengi kynþáttahaturs. Enn fremur leikur Corbucci sér að því að snúa hinum klassíska vestra við, með því að láta indíánann veiða kúrekana, enn eitt dæmið um hvernig leikstjórinn fíflast með hefðir og form í myndum sínum. Eins og Tarantino kemst vel að orði í fyrrnefndu Guardian viðtali eru hetjur Corbuccis einstakar að því leyti að í flestum öðrum myndum væru þeir eflaust í illvirkjahlutverkinu. Navajo Joe er þar engin undantekning: málstaður hans kann að vera göfugur, en hann er engu að síður óforskammaður ofbeldismaður.

En ég á eftir að minnast á eitt aðalatriði kvikmyndarinnar og það er sá sem leikur sjálfa aðalhetjuna: það er enginn annar en Burt Reynolds. Höfum í huga að á þessum tíma var Reynolds orðinn nokkuð þekktur sjónvarpsleikari í Bandaríkjunum, en fjarri því að vera sú stjarna sem við tengjum hann við nú á dögum. Enn fremur hefur hann komið evrópskum áhorfendum ókunnur fyrir sjónir og á rætur að rekja til Cherokee-indíána. Með það í huga er mögulega hægt að ímynda sér að Reynolds gæti verið sannfærandi Navajo indíáni, en það er samt ansi langsótt. Ég á a.m.k. í mestu erfiðleikum með að hrista hið ofur-bandaríska yfirvaraskeggjaða sjarmatröll burt úr huganum í hvert sinn sem ég sé Navajo Joe fyrir mér. Það kann því að vera kaldhæðið að mynd sem tekur rasisma fyrir sem söguefni skuli falla í þá gryfju að skarta hvítri (seinni tíma) stórstjörnu í aðalhlutverkinu, dálítið eins og ef Clint hefði leikið indíána í dollaramyndum Sergio Leones á sínum tíma. Það væri óneitanlega vandræðalegt að horfa á þær myndir í dag.

Að lokum er ekki hægt að kveðja Navajo Joe án þess að minnast stuttlega á tónlist Ennio Morricones, en hún gerir að verkum að þrátt fyrir ýmsa galla mun kvikmyndin vonandi eiga sinn sess í kvikmyndasögunni til frambúðar. Morricone gerði tónlist fyrir ógrynni af vestrum, en Navajo Joe hljóðsporið er eitt af þeim bestu. Aðdáendur Kill Bill-tvíleiksins ættu að kannast vel við aðalstefið, en það kemur fyrir a.m.k. tvisvar í Kill Bill: Vol. 2 – fyrst undir upphafstitlunum („A Silhouette of Doom“) og aftur þegar Bill tekur sín hinstu skref í lok myndarinnar. Einnig má nefna að aðdáendur hinnar ágætu gamanmyndar Election (1999) með Matthew Broderick og Reese Witherspoon ættu að kannast við indíánaópin sem eru endurtekið stef hjá Morricone, en öskrin óma um ganga skólans þegar Witherspoon tryllist og rífur niður veggspjöld mótframbjóðenda sinna í eftirminnilegri senu.