Stamandi Firth bestur á BAFTA – King´s Speech var sigurvegari hátíðarinnar

Hið konunglega dramastykki The King´s Speech var aðalsigurvegarinn á „bresku Óskarsverðlaununum“, BAFTA, um helgina, en myndin vann sjö verðlaun, þar á meðal verðlaunin fyrir bestu mynd síðasta árs, besta leikara í aðalhlutverki, Colin Firth, og bestu leikkonu og leikara í aukahlutverkum, sem eru þau Helena Bonham Carter, sem lék drottinguna, og Geoffrey Rush, sem leikur talþjálfara konungs.
The King´s Speech segir frá Georgi sjötta Englandskonungi og baráttu hans við stam. Myndin atti meðal annars kappi við Facebook myndina The Social Network, en hún vann þrjú verðlaun, þar á meðal fékk David Fincher verðlaun fyrir bestu leikstjórn. Inception hlaut einnig þrjár styttur.

The King’s Speech fékk 14 tilnefningar. Myndin kostaði 15 milljón pund í framleiðslu, en hefur þénað margfalt það í bíó frá frumsýningu.

Aðrar myndir sem kepptu um titilinn Besta mynd voru The Social Network, Black Swan, Inception og True Grit.
Handritshöfundurinn David Seidler, sem sjálfur glímdi við stam, sagði að hann væri gáttaður á að lítil mynd um „tvo menn saman í herbergi“ hefði verið svo vinsæl um allan heim.
Colin Firth vann einnig verðlaun fyrir leik sinn í hlutverki Georgs á Golden Globe hátíðinni, og er líklegur til afreka á Óskarsverðlaunahátíðinni eftir tvær vikur.
„Það er gaman að koma hingað,“ sagði Firth eftir að hafa unnið á sunnudaginn, en hann vann einnig í sama flokki á síðasta ári, þá fyrir myndina A Single Man.

Natalie Portman fékk BAFTA verðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir leik sinni í spennutryllinum Black Swan, en þetta voru einu verðlaun myndarinnar sem fékk 12 tilnefningar. Rýr uppskera það.
The Social Network landaði verðlaunum fyrir leikstjórn, klippingu og handrit. Inception vann verðlaunin fyrir hljóð, hönnun og tæknibrellur.
Besta breska frumraunin var gamanmyndin Four Lions eftir Chris Morris, en myndin fjallar um hóp af mönnum sem langar að verða sjálfsmorðssprengjumenn.
Sænski tryllirinn The Girl With the Dragon Tattoo var valin besta erlenda myndin.
Leikarinn Tom Hardy fékk verðlaunin Rísandi stjarna, sem almenningur valdi.
Hinn 88 ára gamli drakúlatúlkandi Christopher Lee, fékk verðlaun fyrir ævistarfið.