Stamandi kóngur fær flestar BAFTA tilnefningar – 14


Breska kvikmyndin The King’s Speech fær flestar tilnefningar til British Academy Film Awards, BAFTA, sem má segja að séu bresku Óskarsverðlaunin, eða 14 talsins, þar á meðal sem besta mynd.

Colin Firth er talinn líklegur til að krækja sér í styttu fyrir leik sinn í hlutverki hins stamandi konungs George VI, og Geoffrey Rush fyrir leik sinn í hlutverki hins óvenjulega talþjálfara konungs.
Helena Bonham Carter er síðan líkleg til að vinna fyrir leik sinn í hlutverki Elísabetar drottningarmóður.

The King´s Speech fær þó góða samkeppni, meðal annars frá ballett-geðtryllinum Black Swan sem fékk 12 tilnefningar, og Inception draumatryllinum sem fékk níu tilnefningar.

Þolraunabíómyndin 127 Hours og vestri Coen bræðra, True Grit, fá báðar átta tilnefningar.

The Social Network, sagan um stofnun Fésbókarinnar vinsælu, fær sex tilnefningar, þar á meðal fyrir bestu mynd. Aaron Sorkin fær tilnefningu fyrir handritið, og David Fincher fyrir leikstjórn. Jesse Eisenberg fær tilnefningu fyrir bestan leik í aðalhlutverki, í hlutverki stofnanda Facebook Mark Zuckerberg.
Ásamt The King’s Speech og The Social Network, fengu Black Swan, Inception og True Grit tilnefningar sem besta mynd ársins.
Í flokknum besta breska mynd ársins fá myndirnar The King’s Speech, 127 Hours, Another Year, Four Lions, og Made in Dagenham, tilnefningar.

Keppinautar Colin Firth í flokknum besti leikur í aðalhlutverki eru Eisenberg, James Franco fyrir 127 Hours, Javier Bardem fyrir Biutiful og Jeff Bridges fyrir True Grit.

Annette Benning og Julianne Moore fá tilnefningu fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir The Kids Are All Right, ásamt Natalie Portman fyrir Black Swan og Noomi Rapace fyrir The Girl With the Dragon Tattoo og Hailee Steinfeld fyrir True Grit.

Í flokknum besti leikstjóri eru tilnefndir Fincher fyrir The Social Network, Tom Hooper fyrir The King’s Speech, Danny Boyle fyrir 127 Hours, Darren Aronofsky fyrir Black Swan og Christopher Nolan fyrir Inception.

BAFTA verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn 13. febrúar nk. tveimur vikum fyrir Óskarsverðlaunin. Þau eru talin mikilvæg vísbending um hver muni svo vinna Óskarinn.
Á síðasta ári vann stríðsmyndin The Hurt Locker sex BAFTA verðlaun, þar á meðal fyrir bestu mynd, og endurtók svo leikinn á Óskarnum.