Tilnefningarnar skoðaðar – drama- eða spennumynd

Tilnefningarnar fyrir hvern flokk Kvikmyndaverðlauna Mynda mánaðarins og Kvikmyndir.is verða skoðaðar nánar næstu daga, einn flokk í einu, til að hjálpa lesendum að glöggva sig á hverjum flokki fyrir sig. Hér verða tilnefningarnar fyrir Bestu drama- eða spennumynd skoðaðar. Í stafrófsröð:

The Ghost Writer
Þessi nýjasta mynd Romans Polanski náði að drekkja deilum um persónu Romans sjálfs og glæps sem hann framdi fyrir áratugum síðan í Bandaríkjunum og heillaði hún áhorfendur á eigin forsendum, enda er hér um að ræða „ekta“ gamaldags spennumynd sem hefði þess vegna geta verið gerð árið 1977 og verið nánast alveg eins. Það magnaða við það er að það virkar. Það er kannski ekki mikill hasar, en eftirvæntingin eftir honum er alveg jafn skemmtileg.

Inception
Christopher Nolan hrærði duglega í hausum áhorfenda með þessari mynd, sem gerist að mestu leyti inni í huga einnar persónunnar, en draumastrúktúrinn myndar bæði fléttu og spennu myndarinnar og leysir það á afar frumlegan hátt. Leikaraliðið er fyrsta flokks og nær afar vel saman í þessu afar margslungna kvikmyndaverki.

Shutter Island
Hér er mynd sem tók hið þekkta og þreytta form sálfræðitryllisisns og færir það í þrúgandi og kraftmikinn búning, þökk sé meistaranum Martin Scorsese og stórleikaranum Leonardo DiCaprio, auk vel skrifaðs handrits og afar flottrar sviðs- og hljóðmyndar. Hér er allt gert til að láta myndina líta út eins og sálfræðitryllir frá sjötta eða sjöunda áratugnum með hraða nútímamyndarinnar. Og það tekst algerlega.

The Social Network
David Fincher tókst hér á við verkefni sem hefði auðveldlega getað misheppnast – bíómynd um Facebook. Það fór sem betur fer ekki svo, heldur varð útkoman ein jarðbundnasta mynd Finchers frá upphafi, þar sem persónudramað í kringum sérvitra persónu Marks Zuckerberg er í forgrunni. Leikararnir eru svo hver öðrum betri í mjög vandmeðförnum hlutverkum.

The Town
„Boston-glæpamyndin“ er farin að mynda sinn eigin undirflokk mynda, svo margar eru þær orðnar undanfarin 10 ár. Þessi fjallar um hið landlæga vandamál sem bankarán eru þar í borg, og býr til afar spennandi sögu um einn lítinn hóp slíkra ræningja. Ben Affleck var greinilega ekki bara heppinn þegar hann gerði Gone Baby Gone; hann kann að gera góðar myndir.