Skrautlegur Depp hangandi undir lest

Nýr opinber trailer fyrir Disneymyndina Lone Ranger með þeim Armie Hammer og Johnny Depp í aðalhlutverkum, hefur verið frumsýndur og má sjá hér að neðan:

Við fyrstu sýn virðist myndin, sem framleidd er af ofurmyndaframleiðandanum Jerry Bruckheimer og leikstýrt af Gore Verbinski, ekki vera neitt sérstaklega barnvæn, með drynjandi tónlist Led Zeppelin, drungalegum senum og hráslagalegu landslagi.

Ef grannt er hlustað má heyra Johnny Depp segja eina setningu í trailernum á brokkgengri ensku, en Depp leikur indjánann Tonto sem er meðreiðarsveinn og aðstoðarmaður hinnar grímuklæddu hetju John Reid, eða Lone Ranger, sem Armie Hammer leikur. Í lok trailersins hangir Depp undir lestinni og horfir ábúðarfullur á mann.

Það verður greinilega mikið af skemmtilegum áhættuatriðum sem gerast í lestum, ef eitthvað er að marka trailerinn, enda gerist myndin á þeim tíma þegar lestar voru að taka við af hestum sem aðal samgöngutækin.

Áætluð frumsýning myndarinnar er 3. júlí, 2013.