Depp leikur glæpamanninn Bulger

Johnny Depp hefur verið ráðinn í hlutverk glæpamannsins Whitey Bulger í myndinni Black Mass. Reynsluboltinn Barry Levinson verður leikstjóri en hann vann Óskarinn fyrir Rain Man á sínum tíma.

Black Mass fjallar um ævi eins af mestu glæpamönnunum í sögu Bandaríkjanna og er myndin byggð á samnefndri bók um Bulger eftir tvo blaðamenn frá Boston. Bulger varð valdamikill í undirheimum Boston áður en hann gerðist uppljóstrari hjá FBI.

Tökur á myndinni hefjast í maí næstkomandi. Depp sést næst á hvíta tjaldinu í The Lone Ranger þar sem hann leikur indíánann Tonto.