Mads um brottför Depps: „Þetta eru dapurlegar kringumstæður“

Á dögunum bárust óvæntar fregnir um að danski leikarinn Mads Mikkelsen myndi taka við hlutverki Johnnys Depp í þriðju Fantastic Beasts-myndinni.

Depp var gert að segja sig frá hlutverki galdraskúrksins Grindelwald eftir að meiðyrðamáli hans gegn breska götublaðinu The Sun var vísað frá. Depp hafði krafist skaðabóta vegna fullyrðinga blaðsins um að hann hefði beitt fyrrverandi konu sína, Amber Heard, ofbeldi.

Fram­leiðsla á þriðju Fantastic Beasts myndinni (sem enn hefur ekki hlotið opinberan titil) er þegar haf­in en ekki er reiknað með miklu raski á ferlinu í ljósi þessara breytingar. Depp var einungis verið búinn að leika í einni senu.

Þessi leikaraskipting lagðist ekki vel í aðdáendur Depps og var Mikkelsen fyrir miklu aðkasti á samfélagsmiðlum, kallaður svikari og fleiri ófögrum nöfnum.

Mikkelsen var staddur nýverið á blaðamannafundi þar sem hann var að kynna nýja kvikmynd sína, Druk. Þegar leikarinn var spurður hversu frábrugðin persóna Grindelwalds verði í meðförum hans í samanburði við Depp, sagði Mikkelsen málið vera snúið.

„Við erum enn að átta okkur á þessu öllu. Það verður að vera brú á milli þess sem Johnny gerði og þess sem ég mun gera. Á móti verð ég að gera þetta að mínu eigin hlutverki,“ svaraði Mikkelsen og hrósaði frammistöðu Depps úr fyrri myndunum.

Þá var Mikkelsen einnig spurður hvernig væri að hreppa hlutverkið út frá svona dramatískum aðstæðum. Þessu svaraði leikarinn að tækifærið væri augljóslega afar ljúft, vinnulega séð.

„Þetta kom mér samt í opna skjöldu, að það skuli hafa gerst eftir þessa sorglegu atburði. Ég óska þeim báðum hins besta. Þetta eru dapurlegar kringumstæður,“ sagði Mikkelsen.

Áætlað er að „Fantastic Beasts and Where to Find Them 3“ líti dagsins ljós í júlí árið 2022. Gert er ráð fyrir að allir helstu leikarar hinna tveggja Fantastic Beasts myndanna muni snúa aftur, meðal annars Eddie Redmayne, Dan Fogler, Katherine Waterston, Ezra Miller, Alison Sudol og Jude Law sem Dumbledore á yngri árum.

Þess má geta að Rowling sjálf skrifaði handritið að fyrri Fantastic Beasts myndinni en að þessu sinni skrifar hún söguna ásamt Steven Kloves. Unnendur Harry Potter myndanna ættu að kannast vel við nafnið enda skrifaði hann handritsaðlögunina að öllum myndum seríunnar fyrir utan þá fimmtu, The Order of the Phoenix.