Depp ekki lengur Jack Sparrow

Ferli kvikmyndaleikarans Johnny Depp í hlutverki Captain Jack Sparrow í Pirates of the Caribbean myndunum, er nú að öllum líkindum lokið, en yfirmaður hjá kvikmyndafyrirtækinu Disney virðist hafa staðfest það opinberlega sem rætt hefur verið mikið um síðustu mánuði og misseri.

Framleiðslustjórinn Sean Bailey svaraði á þessa lund, þar sem hann var að ræða um endurræsingu á kvikmyndaseríunni – sem Deadpool höfundarnir Paul Wernick og Rhett Reese munu skrifa handritið að – þegar hann var spurður að því beint hvort að serían ætti sér eitthvað framhaldslíf án lykilmannsins Depp.

Í stað þess að neita sögusögnunum, þá sagði Bailey við The Hollywood Reporter: „Við viljum koma með nýja orku og fjör. Ég elska [ Pirates ] myndirnar, en hluti af ástæðunni fyrir því að Paul og Rhett eru svo spennandi kandidatar í þetta verkefni, er að við viljum gefa seríunni gott spark í rassinn. Það er mitt verkefni.“

Óstaðfestðar fréttir um að Depp myndi ekki verða áfram hluti af seríunni komu upp fyrst í október sl. þegar tekið var viðtal á rauðum dregli, við upphaflegan handritshöfund myndanna, Stuart Beattie, sem sagði þá að tími Depp í seríunni hefði verið „frábært tímabil“ ( A Great Run ).

Depp hefur leikið hlutverk Sparrow í fimm kvikmyndum á 14 árum, og samanlagðar tekjur nema um 4,5 milljörðum bandaríkjadala, eða tæplega 530 milljörðum íslenskra króna, sem þýðir að serían er tólfta tekjuhæsta kvikmyndasería allra tíma.

Síðasta mynd, Dead Men Tell No Tales, var frumsýnd árið 2015, undir stjórn leikstjórans Joachim Rønning, og þar var sagt að myndin væri „aðeins byrjunin á loka ævintýrinu.“

Leikur Depp í Fantastic Beast framhaldinu, The Crimes of Grindelwald, sem nú er í bíó hér á landi, var mikið gagnrýndur, í kjölfar þess að leikarinn var sakaður um heimilisofbeldi af fyrrum eiginkonu sinni Amber Heard árið 2016.  Sjálfur neitaði hann ásökunum og samdi um lausn málsins nokkrum mánuðum síðar.

Harry Potter höfundurinn og handritshöfundur myndarinnar, JK Rowling,  og leikstjórinn David Yates komu leikaranum til varnar, og Depp sagði sjálfur: „JK hefur séð sönnunargögnin í málinu og veit þessvegna að ásakanirnar voru falskar, og þessvegna styður hún mig. Hún myndi ekki gera það ef hún vissi ekki um staðreyndir málsins.“