The Lone Ranger fer aftur af stað

Svo virðist sem Disney sé loksins búið að leysa krísuna um The Lone Ranger. Myndin á sér langa forsögu sem ég ætla rekja í sem stystu máli. Johnny Depp, Jerry Bruckheimer og Gore Verbinski, teymið á bakvið Pirates of the Caribbean voru tilbúnir að fara af stað með myndina í sumar, en Disney frestaði henni vegna alltof hás verðmiða (yfir $250 milljónir). Þessi ákvörðun kom strax eftir að hin svipaða Cowboys & Aliens floppaði í miðasölunni, og á vandræðalegum tíma fyrir Disney, en stuttu seinna var D23 ráðstefnan, þar sem Disney kynnir væntanleg verkefni, og ekki var minnst einu orði á Lone Ranger þar.

Síðan hafa borist fréttir fram og til baka um hvernig gangi að skera niður verðmiðann á myndinni. Meðal annars mun þrenningin Depp, Bruckheimer og Verbinski hafa samþykkt launalækkanir, og að trimmuð verði niður yfirnáttúruleg þemu myndarinnar, m.a. einhverjir rándýrir varúlfar. Á kostnaðurinn nú að vera kominn niður í $215 milljónir, sem Disney telur ásættanlegt. Mun því myndin ekki bætast í hóp nýlegra metnaðarfullra verkefna á borð við The Dark Tower og At the Mountains of Madness, sem ekkert hefur orðið úr. Ég spyr mig samt ennþá af hverju einföld kúrekamynd þarf að vera svona fjandi dýr?

The Lone Ranger á sér annars langa sögu, persónan birtist fyrst í útvarpsleikritum á millistríðsárunum, og síðar var gerður sjónvarpsþáttur um kappann sem gekk frá 1949 – 1957. Síðar hafa kvikmyndir og myndasögur verið gerðar um kappann. Hann ferðast um á hvíta gæðingnum Silver, ásamt hinum trausta indjána Tonto. Í nýju myndinni mun hinsvegar Tonto vera forgrunni, og mun Johnny Depp fara með hlutverk hans, á meðan að Armie Hammer (The Social Network) mun leika titilpersónuna. Aðrir leikarar sem fyrir töfina áttu að vera í myndinni voru Helena Bonham Carter, Dwight Yoakam og Barry Pepper, og væntanlega eru þau ennþá um borð. Hér er annars titillagið úr þáttunum, hið fræga William Tell stef eftir Rossini: