Del Toro í Predator

sicarioLeikstjórinn og handritshöfundurinn Shane Black, sem áður hefur komið við sögu Predator kvikmyndaseríunnar, þar sem hann lék í og skrifaði hluta af handriti fyrstu myndarinnar, vinnur nú að handriti að endurræstum Predator, en fyrsta myndin var frumsýnd árið 1987.

Nýjustu fréttir af málinu eru þær, samkvæmt Deadline, að Óskarsverðlaunaleikarinn Benicio Del Toro eigi í viðræðum um að leika í myndinni.

Fátt meira er vitað að sinni, en Black, sem tók þátt í spurningatíma nýlega vegna myndar sinnar The Nice Guys, sagði að hugmynd hans væri að reyna að enduruppgötva Predator. „Þetta er tilraun til að gera hana dularfyllri. Það er búið að ofvinna Predator. Annað hvert ár er eitthvað gert, með litlum tilkostnaði, en með öruggum tekjum.“

Aðalsöguhetjan ku eiga að heita Quinn McKenna, en ekki er víst hvort að Del Toro eigi að leika það hlutverk, eða eitthvað annað.

Del Toro hefur leikið í nokkrum vísindaskáldsögum upp á síðkastið. Hann lék til að mynda í Guardians of the Galaxy og hann mun fara með hlutverk í Star Wars: Episode VIII.

Upphaflega Predator myndin, með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverkinu, fjallaði um hóp úrvalshermanna sem er sendur inn í frumskóg í Mið-Ameríku til að uppræta eiturlyfjahring. Fljótlega verða kapparnir varir við óvætt frá framandi plánetu, sem situr um þá. Hefst þá leikur kattarins að músinni.