Vilja Roth í Risahákarl

eli-roth09-8-10Hrollvekjuleikstjórinn Eli Roth á nú í viðræðum um að taka að sér að leikstýra bíómynd um risahákarl sem kallast „Meg“ fyrir kvikmyndaverið Warner Bros, samkvæmt heimildum kvikmyndavefjarins TheWrap. 

Verkefnið hefur verið lengi í pípunum í Hollywood, eða í um áratug, en aldrei komist almennilega af stað.

Myndin verður gerð eftir skáldsögu Steve Alten og fjallar um tvo menn sem reyna að ráða niðurlögum Megaladon, forsögulegs hákarls, sem getur orðið allt að 18 metra langur! Það mætti ímynda sér þetta sem Godzilla skrímslið, en neðansjávar.

Roth hefur að venju margt á prjónunum. Væntanlegur er frá honum heimilistryllirinn Knock Knock, með Keanu Reeves, sem við höfum sagt frá hér á síðunni, og þá kynnir hann Shark After Dark á Discovery sjónvarpsstöðinni í hinni vinsælu Hákarlaviku stöðvarinnar í næsta mánuði.