Dr. Strange vill danskt illmenni

Variety segir frá því að danski Jagten og Hannibal leikarinn Mads Mikkelsen eigi í viðræðum um að leika einn af þorpurunum í Marvel ofurhetjumyndinni Doctor Strange. Ef af þessu verður þá mun hann leika á móti Benedict Cumberbatch sem leikur titilhlutverkið, Dr. Strange sjálfan. Þá leika einnig í myndinni Chiwetel Ejiofor í hlutverki Baron Karl Mordo og Tilda Swinton í hlutverki The Ancient One.

mads mikkelsen

Ekkert er enn vitað hvaða þorpara Mikkelsen kæmi til með að leika.

Leikstjóri myndarinnar er Scott Derrickson, sem áður hefur gert myndirnar The Day The Earth Stood Still og Sinister. Frumsýning er áætluð 4. nóvember 2016.

Doctor Strange, öðru nafni Stephen Strange, er bráðsnjall skurðlæknir sem slasar sig á höndum. Þegar hann leitar að einhverjum til að hjálpa sér, þá heyrir hann af The Ancient One, sem gæti hjálpað honum með hendurnar. En í stað þess að laga hendur hans, þá ákveður The Ancient One að þjálfa Strange í að verða eftirmaður sinn, til að vernda heiminn frá illum öflum. Þar með verður Strange ein kraftmesta persónan í Marvel ofurhetjuheimum.