Dauðanum slegið á frest

Aðeins ein ný kvikmynd verður frumsýnd í íslenskum bíóhúsum þessa vikuna, nánar tiltekið föstudaginn 8. október. Hún er svo sannarlega ekki af verri endanum; nýjasta James Bond kvikmyndin No Time to Die , eða Dauðanum slegið á frest, í lauslegri þýðingu, sem við höfum beðið eftir síðan í apríl árið 2020, þegar upprunalega átti að frumsýna myndina. Kórónuveiran breytti þeim fyrirætlunum.

Craig í hlutverki sínu sem spæjarinn 007, eða James Bond.

Myndin hefst þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt breytist þegar gamall vinur hans Felix Leiter frá bandarísku leyniþjónustunni CIA kemur og biður um aðstoð. Bond kemst nú á snoðir um ill áform dularfulls þorpara, sem býr yfir hættulegri nýrri tækni.

Öllum Bond myndunum raðað eftir gæðum

Í grein í bandaríska dagblaðinu The New York Times er rætt við breska leikarann Daniel Craig, 53 ára, sem fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni í síðasta skipti, hlutverk njósnarans James Bond, eða 007.

Ekki augljós Bond

Eins og blaðamaðurinn bendir á var Craig ekki augljós eftirmaður Pierce Brosnan í hlutverk spæjarans kvensama. Útlit hans var grófara og ekki eins fágað og margra annarra Bonda. Craig þótti heldur ekki vera með nógu glæsilega ferilskrá og var of ljóshærður.

Í samtalinu segir Craig að hann hafi í prufunum fyrir hlutverkið talið að einungis hafi verið kallað í hann til að vera fallbyssufóður, eins og hann orðar það. Til að auðveldara væri að velja einhvern annan í hlutverkið.

„Ég var bara einn af hópnum – einhver til að ýta til hliðar.“

Hann bætti við að hann hefði í besta falli búist við að fá hlutverk einhvers óþokka sem enginn myndi muna eftir.

En þess í stað fékk Craig hlutverkið og fyrsta kvikmyndin var Casino Royale árið 2006. Þá kom Quantum of Solace árið 2008. Fjórum árum síðar kom Skyfall og þá Spectre árið 2015.

400 milljarðar í tekjur

Tekjur Bond mynda með Craig í aðalhlutverkinu hafa rakað inn þremur milljörðum bandaríkjadala, eða nálægt 400 milljörðum íslenskra króna í miðasölu um allan heim. Myndirnar hafa orðið sífellt metnaðarfyllri og íburðarmeiri á alla kanta. Sú nýjasta er af mörgum talin taka taka þeim fyrri fram í gæðum.

Frægt er orðið svar Craig við spurningu blaðamanns Time Out, um hvort hann gæti hugsað sér að leika í nýrri Bond mynd eftir frumsýningu Spectre. „Ég væri frekar til í að brjóta þetta glas og skera mig á púls“, svaraði Craig.

Í samtalinu við New York Times hlær hann að ummælunum. „Kannski verður mín minnst sem fúla Bond.“

En nú er biðinni lokið og myndin, sem er litlar tvær klukkustundir og 43 mínútur að lengd, kemur í bíó hér á landi á föstudaginn eftir 18 mánaða bið.

Nýtti tímann vel

Craig hefur nýtt tímann í millitíðinni vel og lék m.a. í framhaldi af Knives Out, glæpamyndinni frá 2019. Þar endurtekur Craig hlutverk sitt sem spæjarinn Benoit Blanc.

Daniel Craig ræður gátuna í Knives Out.

Á næsta ári ætlar að Craig að stíga á svið á Brodway og leika í Shakespeare leikritinu Macbeth.