Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Casino Royale 2006

(James Bond 21)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 17. nóvember 2006

The new Bond. Living for Love. Dying for Thrills.

144 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 94% Critics
The Movies database einkunn 80
/100

James Bond fer í sitt fyrsta verkefni sem njósnari hennar hátignar, 007. Le Chiffre er bankamaður sem þjónustar hryðjuverkamenn. Hann tekur þátt í pókermóti í Montenegro, þar sem hann þarf að endurheimta fé, til að tryggja stöðu sína á hryðjuverkamarkaðnum. Yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, sem þekkt er undir nafninu M, sendir Bond á staðinn,... Lesa meira

James Bond fer í sitt fyrsta verkefni sem njósnari hennar hátignar, 007. Le Chiffre er bankamaður sem þjónustar hryðjuverkamenn. Hann tekur þátt í pókermóti í Montenegro, þar sem hann þarf að endurheimta fé, til að tryggja stöðu sína á hryðjuverkamarkaðnum. Yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, sem þekkt er undir nafninu M, sendir Bond á staðinn, ásamt Vesper Lynd, til að taka þátt í leiknum og koma í veg fyrir sigur Le Chiffre. Bond, með hjálp Felix Leiter, Mathis og með Vesper í hlutverki unnustu sinnar, sest að borðinu í mikilvægasta pókerleik ferils síns. En ef Bond sigrar Le Chiffre, mun öryggi hans og Vesper Lynd verða tryggt? ... minna

Aðalleikarar


Það þekkja flestir njósnara hennar hátignar, Jame Bond, enda myndirnar um hann orðnar á þriðja tug. Hér er á ferðinni kvikmyndun fyrstu sögu Ian flemming um þennan skelegga sporgöngumann réttlætis í heiminum.

Þessi mynd er betri en þær Bondmyndir sem við höfum séð á síðustu árum og jafnvel sú besta ef út í það er farið. Hún er myrkari og raunverulegri en forverar hennar, þó það sé auðvitað vafasamt að tala um raunveruleika þegar Bond er annarsvegar. Sambönd persóna tiltölulega djúp og sterk. Samtöl eru safaríkari en oft áður þó þau séu nú kannski ekkert til að hrópa húrra yfir. Daniel Craig ber af öðrum leikurum eins og perla á haugi. Illmennið er ekkert sérstaklega ógnvekjandi og Bondstúlkan ekkert sérstaklega falleg.

Niðurstaðan er sú að hér er á ferðinni frekar svöl og fersk hasarmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Djöfull er ég sáttur með nýja Bond, eitursvalur gaur. Reyndar fannst mér myndin fulllöng og aðeins of margir óvinir. Það var eins og það kæmu bara alltaf nýjir og nýjir out of nowhere að fighta Bondinn. Byrjunaratriðið þegar hann er að elta Yamakazi gaurinn er bara eitt það svalasta sem ég hef séð í mynd, djöfull var það svalt. Þetta er besta Bond myndin i langan tíma, maður var orðinn ekkert lítið þreyttur á Pierce Brosnan.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Eiginlega vonbrigði. Fyrsti hálftími myndarinnar er langskemmtilegastur, en þá koma tvö bestu hasaratriði myndarinnar; þ.e. Bond eltist við mann í Afríkuríki sem er alveg ótrúlega liðugur og atriði á flugvelli þ.s. Bond kemur í veg fyrir hryðjuverk. Nú hvað önnur hasaratriði varðar, fyrir utan atriði við bláendinn þ.s. hús beinlínis sekkur, þá eru hasaratriðin ekkert sérstök.



Ég hef reyndar aldrei séð Bond mynd þar sem er eins langt á milli hasaratriða, en ég hef séð þær allar og sumar oft og mörgum sinnum. Þegar fyrsti hálftíminn er liðinn eru enn 2 tímar eftir og það jaðrar við að vera leiðinlegur tími hreinlega.



Á þessum tveim tímum er að finna það lang lengsta pókerspilunaratriði sem sést hefur í Bond myndum. Bond hefur oft áður spilað póker, en þegar atriðið er svona ótrúlega langt þá verður mjög vandasamt að viðhalda hinu rafmagnaða andrúmslofti spennumyndarinnar, og þar er mergurinn málsins atriðið er einfaldlega ekki nógu vel útfært og verður hreinlega leiðinlegt. Það hefði alveg að ósekju mátt stytta það um helming.



Síðan er það ástarsambandið sem Bond lendir í, en sennilega hefur aldrei áður verið eitt eins miklu púðri í ástarvesen hans Bond. Ég meina, maður er ekki vanur að sjá fleiri mínútna elskenda samtöl í Bond mynd, þ.s. rólegheitin eru alger. Ég var á þessum tímapunkti virkilega að hugsa um að ganga út, svo leiddist mér ferlega. En ég leysti vandamálið með því að lygna aftur augunum og hugsa um eitthvað annað á meðan þessi atriði voru að klárast. Síðan kom lokasenan. Loksins komin Bond mynd sem kærastan hefur ef til vill meira gaman af.



En vandi myndarinnar er ekki síst sá grunnasti söguþráður sem ég hef nokkru sinni séð í Bond mynd. Ég meina það er ekkert stórt að gerast, Bond er ekki að berjast við tímann við að bjarga milljónum manna, eða hvað þá bara þúsundum. Það er eitthvað í húfi, en ekkert sem tengja má við einn ákveðinn háskaatburð sem allt snýst um að stöðva í tæka tíð. Svo þannig séð, stærsti þátturinn sem skapar spennu í gömlu Bond myndunum er einfaldlega úti, þ.e. hið stóra undirliggjandi drama.



Ég get ekki mælt með þessari Bond mynd fyrir gamla aðdáendur James Bond. Myndin fær 2 stjörnur fyrir skemmtilegan fyrsta hálftíma, en leiðindin næstu 2 tímana gera mér ókleyft að gefa meira.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þetta er flott mynd og ekki bara fyrir hörðustu James Bond aðdáendur. Bond er rosalega flottur en í þessari mynd þá kafar maður dýpra í hver hann er og afhverju hann er eins og hann er. Það er fullt af flottum atriðum og mikill hasar. Ég mæli sko með þessari mynd fyrir alla eldri en 16 ára(því það eru nokkur samtöl sem mér fannst nokkrir krakkar ekki vera að skilja í bíóinu og þau voru síblaðrandi um hver þetta væri og hvað hann væri að fara að gera). Þessi Bond er kominn í 2.sæti hjá mér á eftir Sean Connery. Flott mynd sem allir verða að sjá
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Klassíski Bondinn snýr aftur
Ég held að það sé bara best fyrir mig að vera ákveðinn og fullyrða það strax í þessari umfjöllun að hér sé um að ræða eina ef ekki albestu Bond-myndina sem að gerð hefur verið. Hingað til hafa þessar myndir ekki verið neitt nema misvel útfærðar afþreyingarmyndir - í flestum tilfellum a.m.k., og auðvitað hafa þær tekið vissar gæðasveiflur í gegnum árin. Casino Royale er hugsanlega sú besta í röðinni vegna þess að ég finn ekki titil sem hefur roð í hana án þess að þurfa að rekja þann lista til annaðhvort Goldfinger eða From Russia With Love.

Það sem að gerir þessa mynd svo asskoti vel heppnaða er að hún er miklu minna mainstream heldur en meirihluti Bond-myndanna hafa nokkurn tímann verið, sem gerir hana meira í takt við Ian Flemming-bækurnar. Lögð er sterk áhersla á persónuþróun, söguþráð og framvindu. Uppbygging myndarinnar er líka allt öðruvísi og óhefðbundin á allan máta fyrir Bond-mynd. Það veldur því samt sem áður að atburðarás myndarinnar heldur manni föstum við sætið út alla lengdina.

Myndin er líka ætluð allt öðrum hópum heldur en t.d. undanfarnar Pierce Brosnan-myndir. Hér eru engar tilgangslausar sprengjur, engar tæknigræjur (þó svo að þær séu að vissu leyti einkennandi fyrir seríuna) og að sjálfsögðu ekki þunnt, auðútreiknanlegt plott sem að hoppar frá einum yfirdrifnum hasar til þess næsta. Casino Royale er eins jarðbundin og hægt er að gera kvikmynd um njósnara hennar hátignar. Þessi mynd er líka almennt vel skrifuð, og ég man ekki hvenær slíkur kostur tíðkaðist í Bond-mynd, enda hafa handritaskrifin verið fremur ábótavant og talsvert "basic." Söguhetjan okkar er heldur ekki lengur svöl en þó ferlega ýkt martini-drekkandi karlhóra með fyndna frasa, flottar byssur og heilmikla ævintýraþrá. Í fyrsta sinn í mjög langan tíma fáum við að sjá mannlegu hliðina af James Bond, og ég get sko undirstrikað það með stolti að það sé eitthvað sem að lengi hefur vantað í manninn. Maður heldur meira upp á hann þegar að maður sér að hann er alvöru manneskja en ekki stálheppin hasarhetja, og að hann sé umkringdur raunsæjum vandamálum gerir það áhorfið enn betra.

Ég er ljómandi sáttur við allt það sem að Daniel Craig gerir við persónuna. Hann gaf mér alvöru ástæðu til þess að fíla karakterinn í botn á ný. Hann stendur sig vel í hlutverkinu á öllum mögulegu sviðum. Það geislar hreinlega af honum í hverri einustu senu. Craig sýnir bæði hörku og sjarma. Hann kann að flytja góða frasa sem og brandara, ásamt því að koma stórskemmtilega út þegar kemur að ofbeldi. Ég er mjög feginn yfir valinu á honum, og við hans hlið virkar Pierce Brosnan eins og ryðgað módel. Það er erfitt að dæma nákvæmlega hver kandídatinn er sem besti maðurinn í rullunni. Upp á nostalgíuna að gera er maður vanur því að skjóta á Sean Connery, en sem stendur er Craig ekki aðeins búinn að eigna sér hlutverkið, heldur algjörlega brennimerkja það með eigin töktum.

En Craig er ekki sá eini sem að skreytir myndina með slíku prýði. Mads Mikkelsen er skemmtilega ákafur sem illmennið Le Chiffre, en það sem að einkennir hlutverkið er að það er ekki einasti vottur af stereótýpu í þessum karakter. Eva Green sannar sig líka sem óhefðbundin en um leið ein áhugaverðasta Bond-gella sögunnar. Hún hefur alvöru persónuleika, og það er gríðarlega sjaldséð í þessum myndum.

Tæknivinnsla myndarinnar skilar sínu einnig ótrúlega vel. Kvikmyndatakan er flott, og stíllinn er það fjölbreyttur að maður nær loks að finna fyrir einhverju nýju. Meira að segja litlir hlutir eins og nýja intro-ið með titillaginu hafði gerólíkan en brjálæðislega flottan stíl við sig. Það kom manni alveg í glænýjan fíling og fann maður strax fyrir því að þetta ætti eftir að verða eitthvað mun ferskara heldur en nokkru sinni fyrr.

Martin Campbell meðhöndlar einnig leikstjórnina með stæl. Myndin hittir aldrei á dauða eða leiðinlega senu og hasarinn er líka stórskemmtilegur (eltingarleikurinn í Madagascar stendur þó hiklaust upp úr). Campbell hefur samt alltaf verið öruggur í þeirri deild. Spes samt að hugsa til þess að myndin sé leikstýrð af sama manni og færði okkur Goldeneye (ásamt tjöru á borð við Vertical Limit), sem er hugsanlega sú næstbesta af undanförnum Bond-myndum, þrátt fyrir að vera ógurlega mikið í stíl við gamla, ótrúverðuga poppkornsmyndafílinginn. Casino er samt sem í lengri kantinum, og líklegast cirka 10 mínútum lengri en hún ætti að vera. Mjög stór partur fer líka í pókermót, sem spilar reyndar afar mikilvægan þátt í sögunni. Þetta mun örugglega fá ýmsa gallharða spennufíkla til að iða í sæti sínu, en mér fannst þetta lágstemmda yfirbragð koma vel út enda er um allt öðruvísi spennuuppbyggingu að ræða. Hef líklegast ekki séð eins áhugaverðar spilasenur síðan Rounders.

Eftir gríðarlegar efasemdir um Bond og miklar vangaveltur um það hversu leiðinlegur karakter hann varð orðinn eftir síðustu myndina, þá kemur Casino Royale svakalega sterk inn og endurlífgar pakkann allsvakalega. Ég er meira en sáttur og styð nýja, ferska Bondinn undantekningarlaust og kveð þann gamla með virðingu, en samt örlítilli ánægju.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

07.10.2022

Vinátta getur komið úr óvæntri átt

Teiknimyndin Alan litli, sem kemur í bíó í dag, er byggð á vinsælli danskri barnabók eftir leikarana og handritshöfundana Peter Frödin og Line Knuutzon. Alan samþykkir að vera mannlegt loftnet. Alan litli er ellefu ára og er n...

19.05.2022

Einn minnislaus, tvær eldheitar og japanskur draugur

Tvær eldheitar kvikmyndir sem byrja á enska orðinu fire, eða eldur, eru annað hvort nýkomnar í bíó eða verða frumsýndar núna á föstudaginn. Önnur heitir Firestarter, eða Kveikjari í lauslegri íslenskri þýðingu, en hin heitir...

05.10.2021

Dauðanum slegið á frest

Aðeins ein ný kvikmynd verður frumsýnd í íslenskum bíóhúsum þessa vikuna, nánar tiltekið föstudaginn 8. október. Hún er svo sannarlega ekki af verri endanum; nýjasta James Bond kvikmyndin No Time to Die , eða Dau...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn