Blunt og Johnson á bátskrifli niður Amazon í Jungle Cruise

Walt Disney Studios hafa birt fyrstu opinberu stikluna fyrir kvikmyndina Jungle Cruise, en hún er byggð á þekktu leiktæki úr skemmtigörðum Disney.

Dwayne Johnson samþykkir að fara með Blunt eftir að hún segist eiga fullt af peningum.

Eins og hægt er að ímynda sér fyrirfram þá er þetta mynd sem er sneisafull af ævintýrum, og gerist í Amazon frumskóginum. Með aðalhlutverk í myndinni fer enginn annar en vinsælasti kvikmyndaleikari í heimi, Dwayne Johnson, en hann heldur um stjórntaumana á bátskrifli sem siglir niður fljót í skóginum.

Með honum á skipinu er engin önnur en A Quiet Place leikkonan Emily Blunt, sem leikur landkönnuð, í ætt við Indiana Jones, sem leitar að fornum grip djúpt í iðrum skógarins, sem á að hafa lækningamátt. Einnig eru með í för þau The Girl on the Train leikarinn Edgar Ramirez, Jack Whitehall úr Hundur hennar hátignar, Jesse Plemons, sem lék lögguna afskiptu í Game Night, og Paul Giamatti, úr Sideways.

Jaume Collet-Serra (Non-Stop, The Shallows) leikstýrir eftir handriti J.D. Payne, Patrick McKay og Michael Green.

Jungle Cruise er nýjasta myndin í röð mynda frá Disney afþreyingarrisanum, sem það gerir eftir leiktækjum í görðum sínum, en aðrar myndir í sama flokki eru The Country Bears, The Haunted Mansion, Mission to Mars, Tomorrowland og sú vinsælasta af þeim öllum; Pirates of the Caribbean.

Kvikmyndin kemur í bíó hér á Íslandi, og í heimalandinu Bandaríkjunum, 24. júlí 2020.

Sjáðu stikluna og plakatið hér fyrir neðan:

Dwayne Johnson er skipstjórinn á bátnum.