Robert Pattinson vill vera Jeff Buckley

Twilight-stórstjarnan Robert Pattinson ætlar aldeilis ekki að láta sér leiðast eftir að vampírumyndunum lýkur fyrir fullt og allt, en hann leitar nú uppi hin ýmsu verkefni til að taka þátt í að Twilight-seríunni lokinni. Eitt af þeim verkefnum sem hann berst nú hart fyrir er kvikmynd byggð á ævi söngvarans Jeff Buckley.

Buckley er fyrir löngu orðinn goðsögn í tónlistarheiminum, en hann gaf aðeins út eina plötu áður en hann lést ungur að aldri. Pattinson er talinn vilja tryggja sess sinn í Hollywood eftir að Twilight lýkur og vonar að hann hreppi hlutverkið sem og Óskarstilnefningu þegar að því kemur. En hann er ekki einn um að vilja setja sig í spor söngvarans en hann þarf að etja kappi við leikara á borð við Ryan Gosling, James Franco og James Marsden.

– Bjarki Dagur