Opnar sig um fráfall Jóhanns: „Hann var mér sem bróðir í listsköpuninni“

„Ég féll samstundis fyrir hljómum Jóhanns. Það er virðuleg depurð í verkum hans og í grunninn snýst tónlistin um eina djúpstæða spurningu: „Hvers vegna svarar Guð ekki símtölum okkar?““

Denis Villeneuve og Jóhann Jóhannsson.

Svo mælir fransk-kanadíski leikstjórinn Denis Villeneuve en minnist tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar með fögrum orðum í samtali við vefmiðilinn Deadline, tveimur árum eftir andlát hans, en þeir störfuðu þétt og títt saman og höfðu gífurleg áhrif á feril hvors annars.

Villeneuve leikstýrði meðal annars kvikmyndunum Prisoners, Arrival og Sicario og hlaut Jóhann Óskarstilnefningu fyrir þá síðastnefndu. Einnig unnu þeir saman að vísindaskáldsögunni Blade Runner 2049 en tónlist Jóhanns var að lokum skipt út fyrir verk þeirra Hans Zimmer og Benjamins Wallfisch.

Jóhann lést þann 9. febrúar 2018 vegna ofneyslu eiturlyfja. Lokaverk hann var tónlistin í kvikmyndinni „Mandy“ með Nicholas Cage í aðalhlutverki. Segir Villeneuve að Jóhann hafi verið bæði gífurlega metnaðarfullur og auðmjúkur einstaklingur á meðan þeir þekktust.

Erfitt að hlusta á tónlistina

„Hann elskaði að taka áhættu og var alveg óhræddur við að prófa nýja hluti í tónsmíðum,“ segir leikstjórinn og tekur fram að honum þykir gífurlega erfitt að hlusta á tónlistina úr kvikmyndinni Prisoners eftir að Jóhann féll frá. Sú mynd markaði fyrsta samstarf þeirra listamanna og hafði leikstjórinn aldrei áður heyrt neitt í líkingu við hana á sínum tíma.   

„Þessi tónlist er innblásin af svo áhrifum sterkra, norrænna tilfinninga, líkt og þegar snjókorn fellur undir lok dags. Með þessum tónum tókst Jóhanni að koma mikilli mannúð í skuggalega sögu,“ segir Villeneuve. „Hann var mér sem bróðir í listsköpuninni.“