Matt Damon tjáir sig um Star Wars – Elysium vinsælust

Matt Damon, sem leikur í hasarmyndinni Elysium, tjáir sig um Star Wars: Episode VII í viðtali við MTV Geek.

elysium„Ég er ánægður með að J.J. [Abrams] er að leikstýra henni,“ sagði Damon. „Ég man að ég var dálítið stressaður þegar þeir gerðu seinni bylgjuna af Star Wars-myndunum. Þegar allt kemur til alls held ég að fyrstu þrjár myndirnar séu dálítið sér á báti og ekkert geti hreyft við þeim, þannig að af hverju ekki?,“ sagði hann. „Ef þú getur fengið J.J. Abrams til að leikstýra þeim þá hjálpar það til.“

Elysium, sem Neill Blomkamp leikstýrir, er vísindaskáldsögumynd, eða sci-fi, og segist Damon vera mikill aðdáandi slíkra mynda. Á meðal uppáhaldsmynda hans eru Blade Runner, Aliens og Star Wars.

Elysium fór annars vel af stað í miðasölunni í Norður-Ameríku í gærkvöldi og náði inn mestum tekjum, eða 11 milljónum dala. Allt stefnir í að hún verði aðsóknarmesta mynd helgarinnar og hefur henni verið spáð tekjum upp á 30 milljónir dala.

Til samanburðar tók District 9, sem Blomkamp leikstýrði síðast, inn 37, 4 milljónir dala opnunarhelgina sína. Samanlagt græddi hún yfir 200 milljónir dala í miðasölunni um heim allan.

Þess má geta að Elysium kostaði 115 milljónir dala í framleiðslu á meðan District 9 kostaði aðeins 30 milljónir dala.