Stjörnur flykkjast að Elysium

Leikstjórinn Neill Blomkamp, sem gerði hina stórvinsælu District 9 frá árinu 2009, virðist ekki ætla að eiga erfitt með að finna leikara fyrir sína næstu mynd. Nánast ekkert er vitað um myndina annað en að hún muni bera nafnið Elysium, hún mun gerast á annarri plánetu og hún er ekki framhald af District 9.

Þrátt fyrir leyndina sem ríkir yfir verkefninu hafa leikararnir Matt Damon og Sharlto Copley gengið til liðs við Blomkamp, og nú virðist sem Jodie Foster muni einnig taka að sér hlutverk í myndinni. Foster hefur verið frekar róleg undanfarin ár og ekki leikið í mjög mörgum myndun en næst má sjá hana ásamt Mel Gibson í The Beaver, sem hún leikstýrir einnig.

– Bjarki Dagur