Foster gerir bandaríska Kona fer í stríð

Tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn Jodie Foster ætlar að leikstýra, framleiða og leika aðalhlutverkið í endurgerð kvikmyndar Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, sem fékk kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum.

Myndin er umhverfisverndartryllir, eins og það er orðað á Deadline kvikmyndavefnum, en myndin verður framlag Íslendinga til Óskarsverðlaunanna í febrúar nk.

Foster mun fara með hlutverk Höllu, sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur í upprunalegu myndinni, miðaldra tónlistarkennara sem á sér annað líf sem umhverfisverndarsinni sem er sérlega uppsigað við áliðnaðinn á Íslandi, sem spillir hálendi landsins. Halla er á fullu í baráttunni þegar hún fær óvænt bréf þar sem segir að umsókn hennar um ættleiðingu stúlku frá Úkraínu hafi verið samþykkt.

Nú þarf Halla að velta fyrir sér framtíðinni, á sama tíma og fulltrúar yfirvalda eru á hælum hennar, og munaðarlaust barn bíður hennar í öðru landi, og mun uppfylla draum Höllu um að verða móðir. Halla ákveður að framkvæma sína djörfustu áætlun til þessa.

„Kvikmyndin heillaði mig meira en orð fá lýst,“ segir Foster um Kona fer í stríð. „Ég er mjög spennt að leikstýra nýrri bandarískri útgáfu af þessari fallegu, nútímalegu og hvetjandi sögu. Persónan Halla er baráttumaður fyrir móður Jörð, sterk kona sem hættir öllu til að gera hið eina rétta. En ekki án alvarlegra atvika á leiðinni.“

Kona fer í stríð var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, og vann þar verðlaun fyrir handrit í Critics’ Week flokknum.

Þá var myndin sýnd á hátíðum í Haifa, Hamborg og Meolbourne. Þá fékk myndin Lux Film verðlaunin, sem Evrópuþingið veitir bestu kvikmynd í Evrópu.

Myndin er önnur kvikmynd Benedikts Erlingssonar, en áður gerði hann Hross í oss.

Benedikt hefur lýst myndinni sem feminískri sögu með engu því sem menn eiga að venjast úr Hollywood. „Engin eymd, ekkert ofbeldi, enginn dauði, ekki einu sinni byssa, og ekkert kynlíf.“

Foster segist ætla að láta myndina gerast í Bandaríkjunum.

Engin tímamörk hafa verið gefin upp.

Myndin verður fimmta mynd Foster sem leikstjóra, og fyrsta mynd hennar síðan hún gerði Money Monster árið 2016, en þá léku George Clooney og Julia Roberts borgara sem áttu í höggi við risafyrirtæki.

Hinar myndirnar í hennar leikstjórn eru Littla Man Tate, frá 1991, Home for the Holidays, frá 1995, og The Beaver, frá 2001.