Loðinn og Jar Jar Binks hæstánægðir

Eins og við sögðum frá í gær þá ætlar Disney, í kjölfarið á kaupum fyrirtækisins á Lucasfilm, að koma með Star Wars Episode 7 árið 2015, en fyrirtækið ætlar ekki að hætta þar heldur koma með Episode 8 og 9 í kjölfarið, samkvæmt fréttum úr herbúðum Disney. 

Nú þegar eru margir farnir að spá í um hvað þessar nýju myndir munu fjalla, og meðal annars má hér lesa nokkrar vangaveltur þar um.

Peter Mayhew, Maðurinn sem lék Loðinn, eða Chewbacca, í þremur  fyrstu Star Wars myndunum, sagði TMZ fréttaveitunni að hann væri handviss um að Disney muni halda í heiðri anda Star Wars og Lucasfilm, við framleiðslu nýju myndanna. „Ég hef unnið með Disney í mörg ár í kringum Star Wars hátíðahöld, og sé hve mikið þeir unna myndunum og aðdáendunum.“

Mayhew rekur núna the Peter Mayhew stofnunina fyrir börn með sérþarfir.

TMZ ræddi einnig við Ahmed Best, sem talaði fyrir Jar Jar Binks í nýju Star Wars myndunum. „George [Lucas] hefur alltaf verið hetja og lærifaðir. Ég er ánægður með að sagan haldi áfram.“