Tveir Star Wars-leikstjórar koma til greina

Listinn yfir mögulega leikstjóra Star Wars: Episode VII hefur þrengst til muna. Núna koma aðeins tveir til greina.

Þetta sagði framleiðandinn Frank Marshall, eiginmaður Kathleen Kennedy, nýs eiganda Lucasfilm, í viðtali við MTV News. Hún tók við sem eigandi af George Lucas eftir að Disney gleypti fyrirtækið hans í einum bita.

Orðrómur er uppi um að Joe Johnston sem á að baki myndirnar Captain America og Jurassic Park III sé annar þeirra sem koma til greina.

Sjálfur vildi Johnston lítið tjá sig um málið: „Ég er mjög ánægður með að Lucasfilm sé komið á stjá á nýjan leik, óháð því hver fær þetta verkefni á endanum“ sagði hann við Thehollywoodnews.com.

Star Wars-nördar hafa hingað til veðjað á leikstjórana Matthew Vaughn (Kick-Ass) og Brad Bird (Mission:Impossible-Ghost Protocol) sem líklega kandídata en óvíst er hvort þeim verði að ósk sinni.