Leikstýrir mynd um eina verstu mynd allra tíma

Kvikmyndaverið New Line Cinema er í viðræðum um réttinn á The Disaster Artist. James Franco mun leikstýra myndinni, sem fjallar um gerð The Room frá árinu 2003 sem er af mörgum talin ein besta versta mynd allra tíma.

james franco

Franco mun einnig leika aðalhlutverkið, leikstjórann Tommy Wiseau, og Seth Rogen mun bæði framleiða og fara með eitt hlutverk. Franco og Rogen hafa margoft unnið saman, nú síðast við myndina The Interview.

The Room var til að byrja með sýnd í nokkrum kvikmyndahúsum í Los Angeles en var fljótlega tekin af dagskrá vegna þess að áhorfendurna mátti telja á fingrum annarrar handar.

Þrátt fyrir það var Wiseau skömmu síðar beðinn um að sýna myndina aftur og var hún sýnd á miðnætti í bíóinu Laemmle´s Sunset 5. Þangað fóru sömu aðilarnir að venja komu sínar aftur og aftur og aðdáendhópur myndarinnar stækkaði jafnt og þétt, samkvæmt The Hollywood Reporter. Hjálpaði þar til að Hollywood-stjörnur á borð við Jonah Hill og Paul Rudd voru dyggir aðdáendur.

The Room fjallar um dramatískan ástarþríhyrning á milli karlmanns, unnustu hans og besta vinar hans.

Greg Sestero, sem lék í The Room, og Tom Bissell gáfu árið 2013 út bókina The Disaster Artist sem fjallaði um gerð myndarinnar. Sestero skrifaði þar um líf sitt sem leikari í kröggum og hvernig var að vinna með hinum dularfulla og sérvitra Wiseau. Hann hafði enga reynslu af kvikmyndagerð þegar hann ákvað að skrifa handritið að, leikstýra og framleiða The Room.

Framleiðslufyrirtæki James Franco tryggði sér kvikmyndaréttinn að bókinni á síðasta ári eins og Kvikmyndir.is greindi frá.