Norður-Kórea hótar stríði gegn BNA vegna Rogen og Franco

Norður-Kórea hefur opinberlega hótað stríði gegn Bandaríkjunum vegna nýjustu mynd grínleikaranna Seth Rogen og James Franco, aðalleikara mynda eins og Pineapple Express og This is The End.

interview

Hótunin kemur vegna nýrrar myndar sem væntanleg er frá þeim félögum, The Interview, en þar leika þeir fræga blaðamenn sem fá viðtal við hinn stórkostlega leiðtoga Norður Kóreu, Kim Jong-Un, en ríkisstjórn Bandaríkjanna fær þá í staðinn til að ráða einræðisherrann af dögum.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur staðfest að myndin muni hafa miklar afleiðingar í för með sér.

Talsmaður Kim Jong-Un hefur sagt að myndin túlki ákveðin hryðjuverk á hendur Norður-Kóreu. „Að gera kvikmynd sem snýst um að ráða leiðtoga okkar af dögum jafnast á við verstu hryðjuverk og munum við ekki láta þetta viðgangast,“ sagði talsmaður Kim Jong-Un við KCNA News. Talsmaðurinn bætti einnig við að Bandaríkjamenn væru að breiða út hatursáróðri gegn Norður-Kóreu með því að leyfa birtingu á myndinni.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni umtöluðu.