Íslendingar stela senunni af vanaföstum Will Ferrell

Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er miklu fjörugri bíómynd heldur en halda mætti út frá bæði dómum myndarinnar, almennum ferli Wills Ferrells svo ekki sé minnst á þennan glataða titil.

Það að risarnir hjá Netflix hafi ákveðið að vaða í gamansögu með Ferrell í hlutverki Íslendings sem þráir fátt heitar en að vinna Evróvisjón-keppnina, er allt hreinlega álfatöfrum líkast. Í senn er þetta besta og líflegasta landkynning sem við höfum fengið í háa herrans tíð – og um leið eitt dýrasta og fyndnasta diss á okkar kostnað fyrr og síðar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar hjá litla Íslandi frá sjónarhorni Hollywood-linsunnar og tilheyrandi markaðs. Ótal mörgum sinnum hefur landið og leikhópar sést í útlenskum bíómyndum og sjónvarpsþáttum en örsjaldan hefur landanum og landinu gefist færi á að sýna sig á þessum skala. Seinast þegar við vorum svona ríkjandi í brennidepli Hollywood-iðnaðarins var í Walter Mitty endurgerð Bens Stiller, þegar landslag og eldgos í Eyjafjallajökli var ofar í hugum manna en sjálf menningin. Þar á undan voru það klettarnir sem voru í fókus í Journey to the Center of the Earth, og þar áður jöklarnir í síðustu Bond-mynd Pierce Brosnan (viti menn). Ef við horfum enn lengra aftur vorum við vondu karlarnir í D2: The Mighty Ducks. Nú fáum við loksins að vera lítilmagnarnir.

Hlegið með (og að) Húsvíkingum

Sögusviðið hér er vissulega Ísland úr algerri fantasíu; þar sem segulbandsspólur eru enn í notkun, Ríkisútvarpið staðsett í húsnæði Háskóla Íslands, landsmenn nota móðurmálið sparlega og Bílastæðasjóður sektar stöðubrot á Húsavík… þar sem hnúfubakar spóka sig við höfnina. Við kynnumst þeim Lars (Ferrell) og Sigrit (Rachel McAdams), æskuvinum frá Húsavík með óstaðfest ættartengsl, en þau tvö eiga þann draum heitastan að sigra söngvakeppni Eurovision fyrir hönd Íslands.

Það hlaut að koma að því að hin mikla ástríða Íslendinga fyrir Eurovision myndi einn daginn rata fram fyrir kameruna. Eyjan litla hefur frá upphafi haldið í þá von að sigur liggi fyrir einn daginn. Eftir óheppilega röð atburða slysast dúettinn hjá Húsvíkingunum í undanúrslitin. Eins og það sé ekki í nóg þarf að glíma við ástarjátningar, samþykki frá föður, heillandi mótherja frá Rússlandi og ýmsar aðrar hindranir. Eina hjálparmeðalið sem hingað til hefur líklega ekki reynt á með Eurovision er notað hér – Íslendingar leita á náðir álfanna.

Útkoman er grínmynd þar sem maður stenst ekki mátið að hlæja að enska hreimnum, meintri hjátrú okkar, staðreyndinni hvað mörg okkar eru líklegast náskyld og hversu slæm efnahagsáhrif það hefði ef við myndum einn daginn vinna blessaða keppnina. Það er hægt að kalla þetta landkynningu, saklaust flipp eða huggulegt ástarbréf.

Vanafastur Ferrell

Þá kemur mikilvæg spurning; Er hægt að gera beitt stólpagrín að Eurovision þegar keppnin sjálf kostar gerð grínsins?

Handritið reynir með rembingi að komast upp með hvort tveggja en endar á að vera flatur fögnuður með hálfbakaðri hæðni. Myndin er þó ekki að sækjast eftir neinum dýpri undirtónum eða þemum um keppnisandann, pólitíkina eða sameiningarkraftinn. Það sem eftir stendur er dúndurhress og mátulega grilluð lítilmagnasaga sem krúttar yfir sig með hlýjum skilaboðum og sjarma persónanna.

Ef aðeins væri almennileg innstæða fyrir báðum þeim aðalpersónum sem hér eru lagðar á borð. Lars er glær, leiðinlegur, þreytandi karakter; krakki í fullorðinslíkama – eins og Ferrell er hvað þekktastur fyrir. Mest reynir það á trúverðugleika áhorfandans (og hvalirnir taldir með) hvernig Sigrit laðast að honum.

Ferrell hefur áður verið meira yfirdrifinn og pirrandi en hann er sá eini í gríðarstórum hópi – og því miður aðalstjarnan – sem undirrituðum stökk varla bros yfir alla myndina. Grínarinn á það oft til að annaðhvort ærslast eða garga sig í gegnum aðstæður á meðan persóna McAdams, þrátt fyrir hálf-kómískan hreim, hefur svigrúm til að líkjast almennilegri manneskju.

„Fyrr skal ég dauður liggja“

Þó vel megi vera að Ferrell sé almennt fjölhæfur og góður skemmtikraftur fylgir því oft ákveðin áhætta að horfa á grínmyndirnar hans. Það má þó kallast skondið og hressandi að sjá Bandaríkjamanninn leika Íslending sem ítrekað úthúðar Kananum. Engu að síður er súrt að horfa á Will Ferrell mynd þar sem allir og ömmur þeirra á skjánum eru miklu fyndnari en hann sjálfur. Þó verður að segjast að enginn er fyndnari en Hannes Óli Ágústsson.

„Play it!!“

Öll þessi eiturhressa karaktersúpa af fjölbreyttu fagfólki heldur fjörinu reglulega gangandi. McAdams sýnir góða takta, Dan Stevens hreint og beint brillerar sem rússneski keppandinn Alexander Lemtov, sjálfumglatt villidýr og sjarmatröll. Á þeim nótum lætur Pierce Brosnan einnig vel fara um sig (og þá í faðmi laglegrar íslenskrar drottningar meðal annars) sem faðir Lars og fær þann heiður að hrauna ítrekað yfir þann ónytjung sem sonur hans virðist á yfirborðinu vera.

Talþjálfari leikaranna hefur annaðhvort unnið slælega fyrir kaupi sínu eða leikararnir ekki lagt sig nægilega fram við íslenskuna, og er Brosnan þar hvað lakastur. Hann plummar sig þó betur í íslenskunni heldur en Jonah Hill gerði í Maniac – ef slíkir litlir sigrar teljast með. Íslenska málið fer Brosnan álíka vel og sólósöngur, enda eintómt kómedíugull að heyra hann reyna að koma út úr sér setningunni: „Fyrr skal ég dauður liggja.“

Það þýðir annars ekki að sleppa sænska leikaranum Mikael Persbrandt úr upptalningunni, enda stórfyndinn sem seðlabankastjóri Íslands og ánægjulegt er að hafa Graham Norton á kantinum þarna á milli, til þess að hæðast ítrekað að Íslendingunum.

„Iceland is next. The audience have been warned.“

Af okkar fólki eru það Jói Jóhannsson, Ólafur Darri, Hlynur Þorsteinsson og Björn Stefánsson sem eiga einnig nokkra af betri sprettum myndarinnar – fyrir utan Hannes Óla. Álfrún Rose er eitthvað úti að aka með sífelldar grettur og hefði verið gaman að sjá meira gert við Elin Petersdottir í hlutverki móður Sigrit.

Ding Dong og Sigur Rós

Hinir ýmsu unnendur söngvakeppninnar fá matreidda litla einkabrandara en gallinn við að myndin sé meðframleidd af Eurovision-batteríinu sjálfu (þ.e. EBU) kemur í formi söngatriðis þar sem fyrrum keppendur og sigurvegarar leika listir sínar. Númerið er fínt eitt og sér og hefði fúnkerað vel sem auka- eða hliðarefni í markaðstilgangi – en hvernig þessu er klesst inn í söguna gefur sjálfshólinu fullmikinn sess og verður svo kjánalegt að það hlýtur að vera að framleiðendur keppninnar hafi staðið að þessu.

Almennt eru tónlistarnúmerin frábær („Volcano Man,“ „Ja Ja Ding Dong“, „21st Century Viking“ og Lion of Love eru þar ómissandi), mörg hver í fullkomnum Evróvisjón-stíl, og sakar svo ekki að henda einu eða tveimur lögum eftir Sigur Rós í mixið. Myndatakan er í þokkabót nógu dýnamísk og mátulega litrík til að hæfa öllum glansinum og styðja við hann.

Það leynir sér ekki að allt við þessa mynd sem á að heita innihald er eintóm klisja og væri ekki fyrir Íslands- og Eurovision-tenginguna mætti hengja atburðarásina á hvaða formúlu sem er um sigurgöngu lítilmagnans. Það góða við myndina er hinsvegar stanslaust rennsli af bröndurum, bæði í garð Íslendinga og Eurovision-keppninnar. Hún skilar því sem hún á að skila og biður okkur öll um að taka þátt. Hví ekki það?

Niðurstaða:
Best má súmma þessu upp með vísun í hundgamlan eyrnarorm Friðriks Ómars og Guðrúnu Gunnars:
Ég skemmti mér.