Lovato verður íslensk englarödd í Eurovision

Bandaríska ofurstjarnan Demi Lovato, er nýjasta viðbótin við nýju Will Ferrell grínmyndina, Eurovision, sem gerist, eins og nafnið bendir til, á Evrópusöngvakeppninni, sem Íslendingar hafa tekið þátt í síðan árið 1986, þegar Gleðibankinn átti að rúlla upp keppninni. Myndin verður sýnd á Netflix.

Kvikmyndasíðan Deadline Hollywood segir frá því að Lovato muni leika hlutverk Katiana, íslenskrar söngkonu með björtustu englarödd Íslands.

Demi sagði frá þessu á afmælisdaginn sinn í gær, 20. ágúst, í myndbandi á Instagram. Myndbandið hefst á því að Ferrell sjálfur, sem er handritshöfundur, framleiðandi og aðalleikari myndarinnar, talar beint í myndavélina.

“Við viljum koma hér með glænýja tilkynningu um nýjan meðlim í leikhópinn, og það vill til að í dag er afmælisdagur hennar,” sagði Ferrell. “Ég gerði þessa dásamlegu afmælistertu. Til hamingju með afmælið! Vei!”

Næst sjáum við söngstjörnuna halda á kökunni og blása á kertin.

Lovato er enginn nýgræðingur þegar kemur að kvikmyndum, en hún sló í gegn upphaflega í hlutverki Mitchie Torres í Camp Rock. Þá hefur hún gefið út fimm breiðskífur með söng sínum, og lag hennar Sorry Not Sorry, er með 600 milljón hlustanir á Spotify streymisveitunni. Lovato var einnig á lista Time tímaritsins árið 2017 yfir 100 áhrifamestu einstaklinga í heimi.

Fátt er annars vitað um söguþráð myndarinnar nema að Ferrell mun leika fulltrúa Íslands í keppninni og Pierce Brosnan mun leika myndarlegasta mann Íslands. Einnig leikur Rachael McAdams stórt hlutverk í myndinni, auk þess sem nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu, eins og til dæmis Arnmundur Ernst Backman.

Á IMDB síðu myndarinnar er söguþráðurinn eftirfarandi: Hinir stórefnilegu íslensku söngvarar Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir fá stærsta tækifæri lífs síns, þegar þau eru valin til að vera fulltrúar þjóðar sinnar í stærstu söngvakeppni í heimi; Eurovision.

Leikstjóri er David Dobkin, en hann leikstýrði Ferrell og McAdams síðast í Wedding Crashers 2005.

Aðrir íslenskir leikarar í myndinni verða Ólafur Darri Ólafsson, Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Tökur standa nú yfir í Bretlandi, eins og Ferrell minnist á í myndbandinu á Instagram reikningi Demi Lovato: