The Godfather í 4k á 50 ára afmælisdaginn

Hin sígilda Óskarsverðlaunamynd The Godfather eftir Francis Ford Coppola á 50 ára afmæli mánudaginn 14. mars nk. en myndin var heimsfrumsýnd í New York í Bandaríkjunum á þessum degi. Af þessu tilefni gefst kvikmyndaunnendum tækifæri á að sjá myndina á hvíta tjaldinu í 4k myndgæðum, sem þýðir meiri skerpu og því enn ánægjulegri upplifun.

Hægt verður að berja myndina augum í Sambíóunum Álfabakka í VIP salnum á afmælisdaginn en einnig verður hægt að sjá meistarastykkið á nokkrum sýningum í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

Eins og segir í tilkynningu frá Sambíónum er þetta fyrsta og líklega eina tækifærið sem gefst til að upplifa myndina í þessum gæðum á hvíta tjaldinu.

Myndin, sem gerð er eftir skáldsögu Mario Puzo, fékk þrenn Óskarsverðlaun. Marlon Brando fékk verðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki, þá var myndin varlin besta mynd ársins og handritið var einnig valið það besta.

Átök mafíufjölskyldna

Sagan hefst þegar „Don“ Vito Corleone, yfirmaður mafíufjölskyldu í New York, er í brúðkaupi dóttur sinnar. Heittelskaður sonur hans, Michael, er nýkominn heim úr stríðinu, en ætlar sér ekki að koma til starfa hjá föður sínum. Í gegnum líf Michaels sést hvernig viðskipti fjöskyldunnar ganga fyrir sig. Viðskiptin eru rétt eins og aðalmaðurinn er sjálfur, blíð og góðviljuð gagnvart þeim sem bera virðingu fyrir honum, en miskunnarlaus og ofbeldisfull gagnvart þeim sem gera það ekki, eða standa í vegi fyrir fjölskyldunni. Don Vito lifir lífi sínu í stíl við tilveruna í gamla landinu, Ítalíu. En tímarnir eru að breytast og sumir vilja færa hluti til nútímahorfs. Upprennandi óvinur fjölskyldunnar vill byrja að selja eiturlyf í New York, en þarf að fá Don Vito til að leggja blessun sína yfir ráðagerðina. Árekstrar á milli gömlu mafíugildanna og hinna nýju eiga eftir að verða kostnaðarsamir og sársaukafullir….

„Take the gun leave the cannoli“