Egill verður Kristófer í Snertingu

Stórleikarinn Egill Ólafsson mun fara með aðahlutverkið, hlutverk Kristófers, í kvikmyndinni Snertingu, sem Baltasar Kormákur bæði leikstýrir og skrifar handritið að ásamt Ólafi Jóhanni Ólafssyni.

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns sem var mest selda bók ársins 2020.

Í tilkynningu frá framleiðendum segir að tökur myndarinnar hefjist í Lundúnum á sunnudaginn næsta.

Snerting er fyrsta bók Ólafs Jóhanns sem ratar á hvíta tjaldið.

Stefnt er að frumsýningu seint á árinu 2023.

Snerting gerist á Íslandi, Englandi og Japan og á mismunandi tímaskeiðum og því ljóst að hér er á ferðinni ein umfangsmesta íslenska kvikmyndaframleiðsla sem sést hefur eins og það er orðað í tilkynningunni.

Söguþráður:

Þegar sígur á seinni hlutann, leggur Kristófer upp í ferð án fyrirheits, þvert yfir hnöttinn, í leit að svörum við áleitnum spurningum og að ástinni sem rann honum úr greipum, en sem hann bar þó alltaf í hjarta sér. Við förum með honum á vit minninganna og til Japans, þar sem svörin er að finna.