Katla upphafið að einhverju stærra: „Við héldum okkur við ákveðinn realisma“

„Ég vissi að þetta yrði ekki auðvelt enda þungt í framleiðslu. Ég vildi ekki hlaupa til með þetta en svo fékk ég hringingu frá Netflix og þá fór vélin hratt af stað,“ segir Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður.

Eins og mörgum er eflaust kunnugt var sjónvarpsþáttaröðin Katla gefin út á streymi Netflix í vikunni og er þetta í fyrsta sinn sem streymisrisinn framleiðir alfarið íslenska þáttaröð. Í samtali við RÚV segist Baltasar vera sannfærður um að þetta sé upphafið að einhverju stærra, að það hefði verið óhugsandi fyrir áratug að erlendur aðili á stærð við Netflix hefði haft áhuga á að framleiða íslenska seríu fyrir heimsmarkað.

„Ég held að þetta sé bara byrjunin, en ég er búinn að eygja hana lengi. Ég hef unnið að þessu og dreymt um að stækka kökuna hérna,“ segir Baltasar. „Kannski er ég of bjartsýnn en ég ætla þá bara að vera það.“

Orku sleppt í teymið

Að sögn Baltasars eru þættirnir sambland af íslenskum þjóðsögum, vísindaskáldskap og sálfræðilegri „noir“ mysteríu. „Þetta er hugmynd sem ég fékk fyrir töluvert löngu síðan og var að leika mér með: Hvað ef jöklarnir myndu bráðna og við vitum ekkert hvað er undir þeim. Svo þróaðist þetta áfram,“ segir hann.

„Við héldum okkur við ákveðinn realisma í sambandi við hvernig staðan væri eftir eitt ár af eldgosi. En svo sleppum við taumunum og það var eins og orku hefði verið sleppt í teymið, mér fannst þetta mjög skemmtilegt.“

Þættirnir gerast í Vík í Mýrdal þar sem gos hefur staðið yfir í Kötlu í eitt ár. Þegar jökullinn byrjar að bráðna fara undarleg fyrirbrigði að koma í ljós. Þættirnir eru átta talsins og leikstjórar eru þau Börkur Sigþórsson, Þóra Hilmarsdóttir og Baltasar, sem skrifar líka handritið ásamt þeim Sigurjóni Kjartanssyni, Davíð Má Stefánssyni og Lilju Sigurðardóttur.