Grái maður Gosling fær framhald

Netflix hefur staðfest framhald á spennumyndinni The Gray Man með Ryan Gosling og Chris Evans í helstu hlutverkum. Auk þess eru líkur á gerð hliðarmyndar (e.spin-off).
Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu frá árinu 2009 eftir Mark Greaney.

Ein sú dýrasta

Horft var á The Gray man, sem er á meðal dýrustu kvikmynda sem Netflix hefur framleitt, 88,6 milljón sinnum á fyrstu þremur dögunum eftir að hún var frumsýnd 22. júlí sl. Myndin hrifsaði þar með auðveldlega til sín toppsætið á Netflix topp tíu listanum þá vikuna.

Six er laginn með skotvopnin.

Netflix sagði frá þessu á Twitter og staðfesti um leið að leikstjórarnir Joe og Anthony Russo sneru aftur, en þeir leikstýrðu fyrri myndinni.

„Grái maðurinn heldur áfram!  Framhald af The Gray Man er nú í þróun með Ryan Gosling, leikstjórunum Joe & Anthony Russo & meðhöfundinum Stephen McFeely,“ sagði Netflix á Twitter.

Deadpool höfundar

Í sömu færslu, ásamt ljósmynd af Gosling, upplýsti streymisrisinn að hliðarmynd væri einnig í undirbúningi, skrifuð af Deadpool höfundunum Paul Wernick og Rhett Reese.

„Hliðarmynd er einnig í vinnslu frá hinum rómuðu handritshöfundum Paul Wernick & Rhett Reese (Deadpool),“ sagði í póstinum.

Í samtali við Digital Spy sagði Anthony Russo að þeir bræður hefðu alltaf vonast eftir að The Gray Man yrði njósnasería.

„Við sáum algjörlega fyrir okkur stærri söguheim sem The Gray Man væri upptaktur að. Hluti þess sem við elskum við að segja sögur er að við viljum teygja þær lengra, og við bjuggum þarna til eitthvað sem við töldum að hægt væri að víkka út,“ útskýrði Russo.

Margar persónur

„Hluti af því er stærð leikhópsins. Það eru margar persónur sem leiknar eru af mörgum dásamlegum leikurum, og við vonum að áhorfendur vilji fylgja þeim eftir með okkur.“

Söguþráðurinn er þessi: Six er einn færasti leigumorðinginn í hinu háleynilega Sierra prógrammi hjá CIA, bandarísku leyniþjónustunni. En þegar verkefni fer úrskeiðis þá leggur Six á flótta undan hinum siðblinda fyrrum fulltrúa Lloyd Hansen, sem kallaður er til starfa til að koma Six fyrir kattarnef. Six fær hjálp frá Dani Miranda og Donald Fitzroy og nú upphefst æsilegur eltingarleikur og barátta.