Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Astrópía
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Miðað við trailerinn bjóst ég við einhverri ævintýramynd með litla tengingu við raunveruleikann og var orðinn spenntur yfir þeirri hugmynd. En myndin reyndist allt öðru vísi en ég bjóst við og það á góðan hátt. Hér segir frá ofdekruðu gellunni Hildi (Ragnhildur Steinunn) sem hefur alltaf verið upp á aðra komin og þá sérstaklega kærastann og erkibjánann Jolla. Svo vandast málið þegar Jolli lendir í fangelsi og Hidur þarf að standa á eigin fótum og eftir skrautlegar tilraunir til að aðlagast breyttu lífi fær hún vinnu í ofurnördabúðinni Astrópíu þar sem hún kynnist áður óþekktri hlið mannlífsins. Í gegnum nýja starfið kynnist hún allskyns furðufuglum og kveikir m.a. ást í huga eins þeirra, sem einsetur sér að heilla hana með öllum tiltækum ráðum. En tugthúslimurinn Jolli er ekki tilbúinn að láta hana af hendi svo auðveldlega og setur þetta af stað skrautlega atburðarás sem endar með afar furðulegum en skemmtilegum hætti.

Þessi mynd er fínasta skemmtun og ferskur andblær inn í íslenska kvikmyndagerð. Sagan er eilítið klisjukennd en ágætlega spilað úr henni. Handritið er hið ágætasta og myndataka og tæknivinnsla er fín. Auk þess standa leikararnir sig með prýði og skilar Ragnhildur Steinunn sínu hlutverki ágætlega þrátt fyrir litla reynslu í kvikmyndaleik. Sérstaklega vil ég þó hrósa Snorra Engilbertssyni, Höllu Vilhjálms og hinum barnunga Alexander Sigurðssyni sem öll léku sínar persónur einstaklega vel að mínu mati. Sé litið til þess að þessi mynd er gerð fyrir lágt budget og af lítið reyndum leikstjóra (sé miðað við Hollywood), þá finnst mér hún alveg eiga skilið fjórar stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Son of the Mask
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef aðeins eitt að segja við ykkur um þessa mynd. Ekki sjá hana! Í guðanna bænum látið ekki narra ykkur út í að sjá þennan viðbjóð, þið verðið verri manneskjur á eftir og gætuð jafnvel fyllst löngun til að valda ykkur sjálfum skaða. Ef helvíti er til þá er þessi mynd sýnd þar öllum stundum.

Þessi mynd er svo arfavitlaus og barnaleg að ég get ekki trúað því að nokkur yfir 5 ára aldri (með eðlilegan þroska) geti haft gaman að þessu. Ég mun aldrei fyrirgefa aðstandendum þessarar myndar þá smán sem þeir hafa sýnt hinni ágætu Mask með Jim Carrey, sem þó var nú ekkert listaverk út af fyrir sig. Það eina sem þessi mynd skilur jákvætt eftir sig er að þér mun finnast allar aðrar myndir vera meistaraverk, meira að segja Battlefield Earth og Gigli.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beavis and Butt-Head Do America
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Beavis og Butthead eru einhverjar fyndnustu teiknimyndapersónur sem skapaðar hafa verið að mínu mati. Hvort sem það er furðulegur og einstakur ófríðleiki þeirra félaga, asnalegir hláturkækir, einstök heimska þeirra eða barnalegur neðanbeltis-klósetthúmorinn, þá nær þetta allt að verða fyndið án þess að ganga of langt né of stutt.

Málið með fyrirbærið Beavis og Butthead er að annaðhvort elskar fólk þá, eða þolir þá ekki, þannig að fyrir fólk sem fannst þættirnir ekkert spes, ekki búast við öðru í þessari mynd. En fyrir okkur hin sem fílum þessa dáðadrengi, er þessi mynd hin besta skemmtun. Ég segi þrjár stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Transformers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það þarf bara eitt orð til að lýsa þessari mynd: VÁÁ! Þvílík veisla fyrir augað og eyrað, ég leyfi mér að fullyrða að stórkostlegri tæknibrellur hafi aldrei nokkurn tímann sést á hvíta tjaldinu og munu ekki verða toppaðar í bráð!

En nánar um myndina sem slíka. Í fyrsta lagi verður fólk að hafa opinn huga þegar það fer á þessa mynd, þar sem sagan fjallar um vélmenni utan úr geimnum sem breyta sér í bíla og hin ýmsustu tæki, og hér er byggt á vinsælum barnateiknimyndum og leikföngum frá 9. áratugnum. Ef maður vill sjá óskarsverðlaunaleik og leikstjórn sem og dramatíska og innihaldsríka sögu, fremur en tæknibrellur og hasar, þá horfir maður á Godfather eða Shawshank redemtion, en EKKI Transformers.

Sértu aftur á móti eins og ég, þ.e. vilt fara í bíó til að upplifa brjálaðan hasar og sjónræna veislu sem heldur manni límdum við sætið allan tímann, þá er þetta mynd fyrir þig. Eins og allar myndir hefur hún sína galla, fyrir mér er það fyrst og fremst 10 ára stimpillinn, en vegna þessa stimpils nær ómannúðleg illska Megatrons og félaga ekki að skína sem best í gegn auk þess sem sum atriði og samtöl, sérstaklega brandararnir, eru hreinlega barnaleg og ófyndin fyrir fólk yfir 16 ára aldri. Sérstaklega fór persónan Frenzy í pirrurnar á mér en hljóðin í honum og barnalegu stælarnir minntu mig á einhverja mest hötuðu persónu kvikmyndasögunnar, Jar Jar Binks úr StarWars. Þá fór klippingin oft í taugarnar á mér, en hún var oft svo hröð og cameran stöðugt á hreyfingu að maður sá varla hvað var að gerast á köflum, hefði mátt bæta það með fleiri slow motion senum.

En nóg komið af göllum. Eins og áður sagði er myndin ótrúlega flott og hasarinn hraður og góður. Skemmtanagildið er í hámarki. Ég hef ekkert út á leikinn að setja, mér líkaði ágætlega við Shia Lebouf í aðalhlutverkinu sem Sam, og fannst hann skila því nokkuð vel, sérstaklega var ég ánægður hversu vel Sam og Bumblebee náðu saman. Vélmennin eru svakaleg og auðvitað fannst mér Optimus Prime skara þar fram úr, hann er eitursvalur, og ekki skemmir frábær túlkun Peter Cullen fyrir. Megatron var flottur líka í túlkun Hugo Weaving, en það vantaði alveg baráttu hans við hinn svikula Starscream sem fékk fremur lítinn skjátíma, en auðvitað er ekki hægt að koma öllu fyrir í 144 mínútna langri mynd. Hljóðið er frábært (fyrir utan hinn barnalega Frenzy) og tónlistin fín að mestu og passar vel við myndina (ég hrópa nú samt ekki húrra fyrir Linkin Park laginu).

Þannig að niðurstaðan er sú að ég ákveð að miða störnugjöf mína við þá upplifun sem ég hafði af myndinni. Ég sat stjarfur allan tímann, fékk gæsahúð á köflum og varð dapur þegar myndin kláraðist. Ég gekk engu að síður brosandi út og fannst ég hafa fengið mikið fyrir aðgangseyrinn. Kostirnir vega gallana svo margfalt upp að ég hef ekki samvisku í annað en að gefa myndinni 4 stjörnur. Takk fyrir mig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pathfinder
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hahahahaha!! Þessi mynd er svo óviljandi fyndin að það hálfa væri nóg. Þó mig langi til að fá þessa tvo tíma og 900 krónurnar til baka, þá er ég að pínulitlu leyti sáttur með að hafa séð þessa mynd, því að hún er svo léleg að ég met aðrar myndir miklu hærra. ATH: Textinn gæti innihaldið spoilera (ekki það að það skipti máli)!

Sagan er klisjukennd, heimskuleg og óraunveruleg og hrein móðgun að líkja henni við 300. Þær eiga ekkert sameiginlegt. Aðalpersónan er hvítur víkingadrengur sem alinn er upp af indíjánum, eftir að hann varð viðskila við skrímslið föður sinn í ránsferð víkinga til Ameríku er hann var barn. Indíjánarnir (sem by the way eru einhverjir þeir heimskustu sem sést hafa á hvíta tjaldinu), hafa enn ekki samþykkt hann í hópinn og er hann í bömmer yfir því. En svo gerast hræðilegir atburðir og hópur blóðþyrstra og ómannlegra norðurlandabúa (einhverskonar blanda Norðmanna, Íslendinga og Svía af ólíkum tungumálum þeirra að dæma) gerir strandhögg í þorpinu hans meðan hann er á veiðum. Víkingarnir (án nokkurrar sýnilegrar ástæðu) drepa og pynta alla íbúana sem allir eru svo aumir og heimskir að þeir geta ekki veitt neina mótspyrnu. Svo mætir kappinn á staðinn og tekur æðiskast, þar sem hann ákveður að elta uppi víkingana og drepa þá einn af öðrum. Með frumstæð verkfæri að vopni, þroskaheftan hjálparkokk og einhverskonar yfirskilvitlega vitsmuni býr hann til fjöldan allan af gildrum til að klekkja á óvininum sem leiðir til (óviljandi) fyndnasta atriði myndarinnar, en það er þegar víkingarnir eru við það að detta ofan í felligildru að teiknimyndastíl, þá stekkur fram hópur af nautheimskum indíjánum sem lenda í gildrunni (sem er skrítið því indíjánarnir eiga að gjörþekkja þetta svæði og ef ég man söguna rétt voru indíjánar miklir gildrusmiðir, þ.e. veiddu bjarndýr ofl.) En allavega nær kappinn að bjarga deginum að lokum, einn síns liðs, eitthvað sem hópur af þrautþjálfuðum indíjánabardagaköppum gat ekki.

Myndin er uppfull af heimskulegum plott-holum sem gerir hana að algerri vitleysu sem skilur eftir sig mjög margar spurningar og er að mínu mati móðgun við sæmilega þenkjandi fólk. Hún ætti að fá fýlukall í kladdann en hlægileg heimska indíjánanna og fáránleg samtöl víkinganna á ólíkum tungumálum eru svo fyndin að hún fær hálfa fyrir það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Equilibrium
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er meistaraverk! Ég get ekki sagt annað. Hún líkist Matrix að mörgu leyti, en er samt engin eftirherma. Og þrátt fyrir low budget er hún meistaralega vel gerð og leikstjórinn hefur varið peningunum vel, því í myndinni eru ekki of mörg tæknibrelluatriði, en meira lagt upp úr sögunni og persónusköpun. Bardagaatriðin eru að sama skapi listilega vel gerð og taka um margt Matrix fram. Tónlistin passar virkilega vel við dimmt og þurrt yfirbragð myndarinnar og veitir sögunni mun betri túlkun. Leikur Christian Bale er stórkostlegur, og er hann í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Tye Diggs og gaurinn sem leikur yfirmanninn eru líka ansi góðir, einnig Sean Bean þó hann sé í litlu hlutverki.

En meira um söguna:

Myndin gerist í framtíðinni eftir að þriðju heimstyrjöldinni hefur lokið með miklum hörmungum fyrir mannkynið. Mönnum varð ljóst að mannkynið myndi aldrei lifa af þá fjórðu og því var skapað eins konar fyrirmyndarsamfélag þar sem allir lifðu í friði og engir glæpir voru framdir. Mjög göfug hugmynd, en því miður þurftu íbúarnir að fórna sinni dýrmætustu eign: Tilfinningunum!

Fólkið sprautar sig tvisvar á dag með tilfinningabælandi lyfi og yfirvaldið sér til þess að enginn brjóti gegn tilfinningabanninu, og er þeim brotlegu refsað með harðri hendi hinna ógnvænlegu Klerka, sem eru sérsveit háklassa bardagamanna með ótrúlega tækni og kunnáttu að vopni.

Þessi óhugnanlega og tilfinningalausa veröld er sýnd með augum eins þessarra Klerka, Prestons (Christian Bale), en hann er sá hæfasti af þeim öllum og er verulega afkastamikill í útrýmingu uppreisnarmanna. Allt þar til dag einn að honum er gert að handtaka konu nokkra, en hún minnir hann á látna eiginkonu sína. Þessi kona setur Preston í hálfgerða tilvistarkreppu sem að lokum verður til þess að hann tekur ekki inn lyfið sitt. En um leið fara tilfinningar Prestons að ólga innra með honum og við það vaknar efi hans á gæðum og gildum þess samfélags sem hann lifir í og hann verður staðráðinn í að berjast gegn hinu miskunnarlausa yfirvaldi til að frelsa fólkið úr járngreipum tilfinningaleysis. En til þess þarf hann að beita allri sinni kænsku og bardagakunnáttu.


Myndin er sjónrænt og hljóðrænt listaverk sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Ég mæli sterklega með henni og gef henni fullt hús stiga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sky Captain and the World of Tomorrow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er sannkölluð veisla fyrir augað, sem mynduð er af rúmlega 2000 tölvugerðum römmum. Það eru fínir leikarar í helstu hlutverkunum og ná að skila þeim af sér með ágætum. Þó erfitt sé að útskýra söguþráðinn, þá reyni ég það samt. Myndin gerist við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar í veröld sem er frekar fjarri raunveruleikanum. Brjálaður vísindamaður hyggur á heimsyfirráð og hefur rænt 7 af helstu sérfræðingum heims á sínu sviði í vísindum til að hjálpa sér með hina dularfullu áætlun sína. Brjálaði vísindamaðurinn hefur hannað risastór fljúgandi vélmenni og litlar alvopnaðar flugvélar til að ná fram vilja sínum. Þar sem herir heimsins eru of uppteknir til að standa í hárinu á vélahernum, er hinn hugdjarfi málaliði Sky Captain (Jude Law) og hinn dyggi aðstoðarmaður hans, vísindamaðurinn Dax (Ribisi), kallaðir til að berjast gegn ógninni. Inn í málið blandast svo fréttakonan og fyrrum kærasta Sky Captain, Polly Perkins (Paltrow) en hún hefur í höndum sínum upplýsingar sem hjálpað geta við að leita uppi aðsetur hins illa vísindamanns. Hún heimtar góða frétt í staðinn og því neyðist Sky Captain til að draga hana með sér um allt gegn sínum vilja. Þau rata síðan í hin ýmsustu ævintýri á leið sinni sem oftar en ekki eru lífshættuleg. Á leiðinni hitta þau töffarann og liðsforingjann Franky (Jolie) sem hefur yfir að ráða hersveit skipaðri af konum og ákveður hún að leggja Sky Captain lið í baráttu hans gegn hinu illa. Sem sagt, dæmigerð ævintýramynd. En samt svolítið sérstök, þar sem hún sækir stílbrögð sín að miklu leyti í hinar gömlu rökkurmyndir 5. áratugarins, en áberandi dæmi um það er hversu stór hluti myndarinnar fjallar um samskipti Sky og Polly. En annars er þessi mynd hin besta skemmtun. Ps. takið eftir tveim atriðum í myndinni. 1. í byrjun myndarinnar er Polly stödd í kvikmyndahúsi, og á bíótjaldinu er Galdrakarlinn í Oz og það í lit. Sú mynd var ekki gerð fyrr en mörgum árum eftir að þessi á að gerast og þar að auki var ekki komin litmyndatækni á þessum tíma. 2. Þegar Sky og förunautar hans fara ofan í sjóinn á flugvélum sínum, sigla þau niður á botn og framhjá skipi sem heitir Venture (sama skip og í King Kong) og takið eftir búrinu á þilfarinu (lítur út eins og King Kong hafi brotist útúr því).
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monty Python and the Holy Grail
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hrein og bein SNILLD út í gegn!!! Þetta er án efa einhver fyndnasta mynd sem gerð hefur verið og að mínu mati besta mynd Python gengisins. Sumir líta á hana sem ádeilu að einhverju tagi en það er bara kjaftæði. Þessi mynd er einungis furðulegt hugarfóstur furðulegra snillinga sem örlítið er byggð á grunni sögunnar um Artúr konung og riddara hans. Persónurnar sem koma við sögu eru hver annarri furðulegri og atriðin eru ruglingsleg röð af fáránlegum uppákomum og samtölum sem eru helber snilld. Inn í þetta blandast svo teiknaðir þættir sem eru svo steiktir og oft tilgangslausir við framgang sögunnar (sbr. atriðið þar sem munkurinn kvartar yfir veðrinu) að þeir verða á undarlegan hátt ómissandi í myndinni. Það er endalaust hægt að telja upp snilldina á bak við djúpsteikta brandarana í myndinni og þarf maður að horfa á hana nokkrum sinnum til að ná þeim öllum.

Þessi mynd er fullkomin til að horfa á ef manni líður illa og er ég viss um að hún gæti vakið mann upp frá dauðum um leið og hún drepur aðra úr hlátri. Ég gef henni 10 stjörnur af 4 mögulegum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
AVP: Alien vs. Predator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hef ekki spilað leikinn að ráði, en ákvað að kíkja aðeins á myndina og hún kom mér bara nokkuð á óvart.

Hún er drulluspennandi, flott og svo kom mér virkilega á óvart að það er ágætlega pottþéttur söguþráður í henni. Ég ætla að rembast við það að spoila ekki.

En allavega... myndin byrjar þegar vísindamenn fyrirtækisins Waylen industries hafa uppgötvað dularfullt mannvirki lengst undir suðurskautslandinu sem þeir telja vera merki um forna menningu, og í framhaldinu af því kallar milljarðamæringurinn og vísindamaðurinn Waylen saman sérfræðinga af ýmsum sviðum og skipuleggur leiðangur til að rannsaka það sem er undir ísnum áður en aðrir aðilar uppgötva það. Leiðangurinn fer í mikilli leynd á staðinn og býr sig undir rannsóknir. En... eitthvað er þarna niðri, og það er ekki vingjarnlegt. Upphefst barátta upp á líf og dauða þar sem vesalings mannfólkið virðist vera í miðju stríði milli geimverukynþáttanna tveggja og eru fáar undankomuleiðir.

Hörkugóð mynd og fínar tæknibrellur, ágætis leikur og eins og áður sagði kemur sagan manni á óvart. Eini gallinn á útgáfunni sem ég sá er að það er búið að klippa svo mikið af atriðum úr henni að hún er bara 88 mínútur að lengd. Vona innilega að hún komi í upprunalegri útgáfu á DVD.


Ps. takið eftir nafni milljarðamæringsins og hver leikur hann. Klingir nafnið Wayland BISHOP einhverjum bjöllum hjá Alien fönum?


Kv. Seppi
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
What a Girl Wants
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var PLATAÐUR til að sjá þessa mynd og hef varla fyrirgefið manneskjunni ennþá, því mér þótti þessi mynda alveg afkára vitlaus og með eindæmum leiðinleg. En jæja fyrir þá sem ekki hafa séð myndina lesið ekki lengra.

Í stuttu máli fjallar hún um unga og partíóða stelpu sem alin hefur verið upp af móður sinni í Bandaríkjunum, hún kemst að því að faðir hennar er einhverskonar pólitíkus í Bretlandi og af fínum ættum. Og því ákveður hún að fara og hitta hann (með hræðilegum afleiðingum).

Hún fer til Bretlands og ryðst inn á hinn fína herragarð sem þingmaðurinn faðir hennar býr ásamt unnustu sinni. Faðirinn er auðvitað steinhissa á því að hann eigi dóttur því hann hafði ekkert heyrt frá móður hennar frá því að þau áttu saman one night stand fyrir mörgum árum. Og unnusta hans er frekar hneyksluð, sem og breska pressan. Og enn meiri furðu vekur að stelpan er algjörlega óalandi, því hún hagar sér bókstaflega eins og fífl við allar aðstæður með sinni óstjórnlegu þörf til að byrja að dansa og syngja þegar henni dettur í hug. En svo róast hún niður og allt virðist stefna í gott lag, en þá kemur til sögunnar vatnsgreiddur breskur vandræðaunglingur sem vekur ást í hjarta hinnar villtu stelpu og hún tryllist á nýjan leik.

En svo verður faðir hennar að gera upp við sig; vill hann kynnast villtu lausaleiksbarni sínu nánar eða vill hann frekar halda áfram að stíga metorðastigan??

Voðalega óspennandi og leiðinleg klisja með fyrirsjáanlegri atburðarás, lélegu handriti og litlausum leik. En aðalleikonan má þó eiga það að hún er með sætt bros sem hún notar mikið í myndinni. Það þykir þó mér ekki nógu mikið til að gefa þessarri mynd meira en 0 stjörnur.

Takk fyrir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Passion of the Christ
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög trúaður maður og aldrei virkilega pælt í því að einhverju ráði. En eftir að hafa séð þetta ótrúlega sjónræna listaverk Mels Gibson, held ég að ég hafi séð ljósið! Söguna þekkja allir, en framsetning hennar í þessarri mynd er með slíkum afbrigðum að annað eins hef ég ekki séð á minni ævi. Stórgóður leikur, frábært útlit, tónlist og einstaklega tilfinningaþrungið andrúmsloft þessarrar myndar gripu mig svo miklum heljartökum að ég dofnaði í stólnum og fannst sem ég hefði svifið inn í einhverskonar draum þar sem ég varð máttlaus frammi fyrir hinum gríðarlegu sjónrænu, hljóðrænu og ekki síst tilfinningalegu stórskotum sem drundu svo á skilningarvitunum að mig langaði að brotna saman og hágráta eins og ungabarn! Svo mikil voru áhrif þessarrar myndar á mig, að ég gat ekki og get varla enn talað um hana eða hugsað til hennar án þess að tárast! Ég get vart orða bundist yfir mikilfengleik þessarrar myndar og mun ég bera endalausa virðingu til Mels Gibson fyrir að hafa lagt í þetta stórvirki.

Hann fær líka mikið kredit fyrir að hafa myndina á hinum fornu tungumálum Aramísku og Hebresku, og að hafa hana algjörlega lausa við allt Hollywood-lúkkið.

Þetta er án efa sú besta, en jafnframt tilfinningalega erfiðasta mynd sem ég hef nokkurn tíman séð og gef ég henni endalausar stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
On Deadly Ground
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég dáði þessa mynd!!! Þegar ég var 7 ára gamall eða svo, fannst Seagal alveg rosalega kúl og myndin skemmtileg.

En svo horfði ég á myndina aftur 10 árum síðar (og nokkrum þroskastigum ofar) og komst að því að þetta var með verri og fáránlegri myndum sem ég hafði séð! Sem sé, handrit, leikur og söguþráður þessarrar myndar er svo furðulega amatörslegur og afkáralegur að mætti halda að 7 ára barn hefði verið við leikstjórastólinn og andlega veikur handritshöfundur við þess hlið.

En allavega, þessi mynd fjallar um hörkutólið Seagal, sem er mjög fær sprengjufræðingur og er ráðinn til starfa við olíufélag nokkurt í Alaska eða eikkursstaðar. Seagal kemst reyndar fljótt að því að olíufélagið hefur illar áætlanir um gangsetningu nýjasta borpallsins síns, sem hefur vísvitandi verið búinn gölluðum öryggisbúnaði til að standast tímaáætlun olíuréttarsamningsins. Því ef þessi búnaður brysti gæti orðið svakalegt umhverfisslys á viðkvæmu lífríki landsins í kring, og það getur hetjan Seagal ekki sætt sig við. Hann vingast við eikkura eskimóa sem eiga landið sem borpallurinn er á, og ákveður að hjálpa þeim að losna við hið illa olíufélag og vonda yfirmann þess, með kung-fú, sprengjur og byssur að vopni!!!

Furðuleg mynd með furðulegu plotti sem keyrir sjálft sig um þverbak þegar á líður myndina. Virkilega óraunhæf saga og tilgerðarlegur leikur myndarinnar gefur ekki mikla ástæðu til að gefa meira en 0 stjörnur, en mér fannst stirðbusalegt kungfúið og byssugleðin hans Seagals svo fyndin að ég verð að gefa hálfa.


Takk fyrir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hard Target
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hard Target er B-mynd í hæsta gæðaflokki. Lítið er gert úr söguþræði en meira úr flottum bardagaatriðum. Van Damme er í essinu sínu í þessarri mynd, þar sem hann þarf að beita öllum sínum kröftum til að lumbra á hátæknivopnuðum mannaveiðimönnum, sem hafa það að féþúfu að selja ríkum mönnum "veiðileyfi" á gamla fyrrverandi hermenn. Myndin er óraunveruleg í marga staði en hverjum er ekki sama þegar um góðan hasar er að ræða. Sem dæmi má taka svakalegt atriði í vörugeymslu, þar sem van Damme stútar tugum byssuóðra brjálæðinga (oftast 10-20 skot á hvern!!). Frábær skemmtun þó leikurinn mætti vera aðeins uppbyggilegri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lost World: Jurassic Park
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er satt að þessi mynd hefur ekkert í fyrri myndina að segja. Vandamálið er að þessi hugmynd er útjöskuð og ekkert spennandi lengur. Þó má sjá mörg skemmtilega ofbeldisfull og fyndin atriði í henni. Lokaatriðið setur stóran + á myndina, snilldarlega gert og tæknibrellur glæsilegar. Hún er því vel þessarra tveggja og hálfrar stjarna virði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei