Inside Man er ljómandi fínn glæpaþriller sem hefur þann merkilega kost að ná að halda manni vakandi sem og áhugasömum út lengdina.
Myndin fer ekki beint nýjar leiðir, þ.e.a.s. ef litið er á grunninn sem söguþráðurinn byggir á, en handritið býr yfir ferskum undirtónum, enda bæði þétt og inniheldur passlegan skammt af fléttum, bæði fyrirsjáanlegum og óvæntum.
Leikaraúrvalið er heldur ekki amalegt. Clive Owen er þarna fjandi nettur, eins og ávallt. Christopher Plummer, Jodie Foster og Willem Dafoe eru jafnframt góð til útlits og skreyta myndina vel. Sá eini sem ég er ekki alveg að koma til með að hrósa er sjálfur Denzel Washington, en það er aðallega af sökum þess að hann hefur farið þennan veg of oft og gerir satt að segja ekki neitt nýtt eða af miklu viti. Leikararnir smella samt stórvel saman og bera myndina uppi í sameiningu.
Spike Lee tekst einnig að beita sínum brögðum svo að myndin sýnist ekki voða basic. Lee á samt til með að missa sig aðeins í stílfæringu, þá aðallega með öfgakenndri myndatöku - eitthvað sem hann hefur sjaldan gert áður. Stundum virkar þetta vel, en í öðrum tilfellum fór ég hálfpartinn að glotta yfir þessu. Takið sérstaklega eftir ákveðnu skoti þar sem Denzel "gengur" í átt að myndavélinni. Glatað!
Góð samtöl, skemmtilegir leikarar og spennandi söguþráður einkennir ræmuna. Inside Man er samt ekki að reyna að vera neitt annað en spennandi afþreying með heilann á réttum stað, og sem slík nær hún markmiði sínu.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei