Fínasta endurræsing

Í stuttu máli endurræsir „Terminator: Dark Fate“ myndabálkinn á góðan máta eftir að þrjú síðustu innleggin náðu ekki miklu flugi.

Dani (Natalia Reyes) vaknar upp við vondan draum þegar Rev-9 (Gabriel Luna), háþróaður tortímandi úr framtíðinni, einsetur sér að drepa hana. Henni til hjálpar, einnig úr framtíðinni, er Grace (Mackenzie Davis) sem er mennsk en hefur verið smávegis endurbætt til að verja Dani betur. Á ögurstundu blandar Sarah Connor (Linda Hamilton) sér í baráttuna en hennar takmark í lífinu er að elta uppi og eyða tortímendum úr framtíðinni. Þríeykið reynir hvað það getur að forðast Rev-9 og koma með áætlun til að eyða honum. Inn í söguna kemur svo gamli tortímandinn „Carl“ (Arnold Schwarzenegger) en hann og Sarah eiga óuppgerðar sakir.

„Terminator: Dark Fate“ er sjötta myndin í seríunni en hún staðsetur sig sem beint framhald af „Terminator 2: Judgement Day“ (1991) og hunsar algerlega „Terminator 3: Rise of the Machines“ (2003), „Terminator Salvation“ (2009) og „Terminator Genisys“ (2015) til að einfalda hlutina enda var tímalínan orðin allsvakalega ruglingsleg. Í ljós kemur að sigur Söruh og sonar hennar John Connor í „Judgement Day“ var dýru verði keyptur og hann kom ekki í veg fyrir framtíð þar sem vélar ná yfirhöndinni og ráðast gegn mannkyninu.

Upprunanlegi hugmyndasmiðurinn James Cameron snýr aftur sem framleiðandi og hér á hann einnig hluta í sögunni en „Dark Fate“ leitar allverulega til frummyndarinnar og endurvinnur að miklu leyti þann söguþráð. Að því leyti býður myndin upp á takmarkaðar nýjungar en grunnhugmyndin heldur manni vel við efnið og persóna Söruh (og frammistaða Lindu Hamilton sem snýr aftur í hlutverkið eftir 28 ára hlé) hleypir miklu lífi í framvinduna. Einnig var það sterkur leikur að fá Schwarzenegger aftur til leiks en „persónu“ hans er snyrtilega komið fyrir í sögunni og tilgangur hans og Söruh færa myndinni gott innlegg sem gefur henni aukna dýpt. Schwarzenegger sýnir einnig að hann hefur engu gleymt og hann fær m.a.s. nokkrar fyndnar línur til að vinna með og hann neglir þær algjörlega.

Hasarinn er mikill og vel framreiddur þó tölvuteikningarnar séu á stundum helst til of ýktar. Nýi tortímandinn er sannarlega mikið tækniundur og eyðileggingamáttur hans gríðarlegur en það liggur við að hasarsenurnar séu í það lengsta og mætti kannski örlitið stytta þær ef eitthvað er. Samt er nógu mikið af senum sem fá svigrúm til að anda og greina frá persónunum en skemmtilegast er að fylgjast með gömlu jálkunum Hamilton og Schwarzenegger.

„Terminator: Dark Fate“ er í það minnsta góð viðbót í myndabálkinn og sagan er aftur komin á línulegra og skiljanlegra (einfaldara?) plan.  Sennilega er það bara sniðugast að Cameron sjálfur sé með puttana í þessu enda hans hugarfóstur frá byrjun.