Ferrell með enskan framburð í fyrstu stiklu úr Holmes and Watson

Fyrsta stiklan úr gamanmyndinni Holmes and Watson, með grín-tvíeykinu Will Ferrell og John C. Reilly, sem áður hafa ruglað saman reitum í myndum eins og Talladega Nights og Step Brothers, er komin út.

Eins og sjá má í stiklunni gera þeir félagar grín að rannsóknarlögreglumanninum Sherlock Holmes og félaga hans Dr. Watson, sem koma fyrir í skáldsögum Arthur Conan Doyle,  en svo virðist sem Englandsdrottning leiki stórt hlutverk í því sakamáli sem þeir félagar eru að fást við í myndinni.

Meðal þess sem við fáum að upplifa í þessari stiklu er Will Ferrell að bregða fyrir sig há – enskum framburði.

Leikstjóri kvikmyndarinnar og handritshöfundur er sá sami og gerði Get Hard með Ferrell, Etan Cohen.  Sami maður er einnig ábyrgur fyrir hinum stórskemmtilegu Idiocracy (2006) og Tropic Thunder (2008).

Myndin kemur í bíó hér á landi, 4. janúar nk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: