Febrúarblað Mynda mánaðarins er komið út

Febrúarblað mest lesna tímarits landsins, Mynda mánaðarins, er komið út, og er hægt að finna það á leigum, í bíóum, Hagkaupum og ELKO, auk margra fleiri staða.

Meðal efnis í febrúarblaðinu er viðtal við hina Óskarstilnefndu Natalie Portman, sem svaraði nokkrum spurningum um Black Swan fyrir okkur, og viðtal við Matt Damon, sem fer með eitt aðalhlutverkanna í True Grit. Ekki slæmt það.

Svo er Bjarki Dagur, hinn ofurduglegi fréttaritari hér á Kvikmyndir.is, orðinn nokkurs konar fastapenni í blaðinu, en í þessu blaði telur hann upp 7 bestu myndirnar til að horfa á með félögunum. Það kemur ýmislegt á óvart í þeirri upptalningu. Í blaðinu lítum við einnig á reboot-æðið sem ríður nú yfir ofurhetjumyndabransann og lítum nánar á fjórðu Pirates-myndina, On Stranger Tides, sem von er á snemmsumars, og fyrstu Tintin-myndina af þremur, sem verður næsta jólastórmynd.

Auk þessa efnis er að sjálfsögðu yfirlit yfir alla útgáfu mánaðarins í bíó, á DVD/Blu-ray og í tölvuleikjunum, þar sem bæði er að finna helstu upplýsingar og skemmtilegan fróðleik um hverja mynd.

Tékkið á þessu!

-Erlingur Grétar