Myndir mánaðarins: Marsblaðið komið út

Þá er marsblað Mynda mánaðarins komið út, númer 206 (hvorki meira né minna) frá upphafi og númer 14 síðan samstarf þess og vefsins Kvikmyndir.is hófst.

Í nýjasta blaðinu er að venju að finna kynningar á öllu því sem von er á í bíó og á leigur í mánuðinum, en meðal stærstu mynda í bíó í mars eru forsíðumyndin Rango, spennumyndirnar Unknown, The Adjustment Bureau og Battle: Los Angeles, gamanmyndirnar Love and Other Drugs, Hall Pass og No Strings Attached, teiknimyndin Mars Needs Moms, hinar íslensku Okkar eigin Osló og Kurteist fólk, og svo furðuverkið Four Lions, svo dæmi sé tekið. Meðal þess mest spennandi á DVD í mánuðinum má nefna forsíðumyndina Due Date, spennutryllinn Devil, flippmyndina Jackass 3D, auk mynda eins og Wall Street 2, Easy A, Unstoppable og The American.

Í blaðinu er einnig að finna urmul viðtala og annars spennandi efnis. Við litum bakvið tjöldin hjá Rango og skoðuðum hvað „Emotion Capture“ þýðir, öttum leikstjórunum Reyni Lyngdal og Ólafi de Fleur Jóhannessyni saman í spurningakeppni um íslenskar myndir og tókum viðtöl við Aaron Eckhart úr Battle: Los Angeles, Liam Neeson úr Unknown og Anne Hathaway úr Love and Other Drugs.

Auk þess er að finna umfjöllun um rithöfundinn Philip K. Dick, sem hefur verið innblástur fyrir margar áhugaverðar Hollywood-myndir í 30 ár, hann Bjarki skrifaði um nokkrar Hollywood-stjörnur sem eru þekktar fyrir að vera erfiðar í samstarfi og við skoðum hvaða 10 myndir hafa fengið flestar Óskarstilnefningar án þess að vinna ein einustu verðlaun. ATH: Sá listi var gerður áður en nýliðin Óskarshátíð fór fram, en True Grit skellti sér ofarlega á þennan lista. Hversu ofarlega sjáið þið þegar þið skoðið listann.

Það er því af nógu að taka í marsblaðinu. Endilega kíkið á það hér á vefnum (það kemur upp seinna í dag), eða sækið ykkur eintak á næstu leigu, í bíó eða í Hagkaupum eða Elko.

-Erlingur Grétar