Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Love and Other Drugs 2010

(Hard Sell, Love )

Justwatch

Frumsýnd: 18. mars 2011

112 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 49% Critics
The Movies database einkunn 55
/100

Jamie er ungur og orkuríkur maður sem nýtur sín engan vegin í starfi sínu í raftækjabúðinni þar sem hann vinnur. Auk þess er hann beinlínis að kafna úr sjarma og er rekinn fyrir að sofa hjá kærustu verslunarstjórans. Eftir það býður Josh, bróðir Jamies, honum vinnu hjá lyfjafyrirtækinu Pfizer við að selja lyf. Hann fetar sig fljótt og örugglega upp... Lesa meira

Jamie er ungur og orkuríkur maður sem nýtur sín engan vegin í starfi sínu í raftækjabúðinni þar sem hann vinnur. Auk þess er hann beinlínis að kafna úr sjarma og er rekinn fyrir að sofa hjá kærustu verslunarstjórans. Eftir það býður Josh, bróðir Jamies, honum vinnu hjá lyfjafyrirtækinu Pfizer við að selja lyf. Hann fetar sig fljótt og örugglega upp metorðastigann, aðallega með því að beita persónutöfrum sínum óspart á kvenfólk en einnig vegna ný lyfs sem er að koma á markaðinn sem heitir Viagra! Þegar hann hittir Maggie, kynnist hann loks jafnoka sínum. Hún sér umsvifalaust í gegnum hann og eru þau orðin bólfélagar innan hálftíma frá fyrsta stefnumótinu! Smám saman heillast hann meira og meira af henni en brátt fara kvillar hjá þeim báðum og veikindi hennar að setja strik í sambandið. Myndin er byggð á endurminningum Jamie Reidy "Hard Sell: The Evolution of a Viagra Salesman." ... minna

Aðalleikarar

Fín mynd
Fyrir hlé er myndin algjör snilld, eftir hlé fer hún út af sporinu. Hún reynir að vera dýpri en hún er í raun og veru. Ég datt gersamlega út úr myndinni. Ég var þennan punkt mjög dreginn inn í söguna. Allan seinni part myndarinnar var ég að velta fyrir mér hvernig væri hægt að breyta þessum seinni part. Þeir reyna að blanda Something About Mary og Sophie's Choice. Var ekki alveg að virka fyrir mig, en sem heild er myndin fín. Það er fallið í Judd Apatow gildruna, þ.e. myndin var mun lengri en hún átti að vera og sagan verður þurr, sífelldar endurtekningar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Meira fullorðins en þú heldur
(Ath. Þessi umfjöllun jaðar við það að spoila – ekkert of merkilegt en ég gef sterkt í skyn hvert seinni hluti myndarinnar stefnir. Betra að skella viðvörun á til að pirra ekki suma)

Það er alls ekki algengt að maður sjái leikstjóra, sem hefur næstum því bara ofbeldisfullar dramamyndir að baki (sem gerast oft í fortíðnni), skipta svona allverulega um gír. Edward Zwick, maðurinn sem gaf okkur m.a. Glory, The Last Samurai og Defiance, fer núna langt út fyrir þægindasvæðið sitt og gerir mjög svo sérstakt rómantískt gamandrama, sem í fyrstu lítur út eins og eitthvað sem Hollywood ælir reglulega út úr sér bara til þess að græða á fallegum leikurum. Seinast þegar hann gerði eitthvað í líkingu við þetta var árið 1986, þegar hann var rétt að byrja. Það kom mér geysilega mikið á óvart þegar ég sá síðan að Love & Other Drugs er alls ekki jafn standard mynd og ég bjóst við, og það kom mér enn meira á óvart að hún skuli ekki vera gerð með markhóp ungs fólks í huga. Í staðinn fékk ég áhrifaríka og þroskaða litla mynd sem snertir alvarleg málefni en nær samt að vera fyndin á köflum og furðu heillandi þegar uppi er staðið.

Maður finnur það strax á tóninum að þessi mynd er ekki eins og flestar stjörnuprýddar bandarískar ástarsögur, og það er eiginlega þeim mun meira svekkjandi þegar maður sér að hún fer ansi strangt eftir hefðum þegar lengra líður á. Formúlukennd er hún samt alls ekki og handritslega séð er meira á bakvið myndina heldur en þú heldur. Persónurnar – þá aðallega þessar tvær í forgrunninum – eru skrifaðar sem alvöru manneskjur, sem þýðir að þær eru jafn gallaðar og þær eru skemmtilegar, og ég meina það á góðan hátt. Senurnar með þeim saman eru hreinskilnar og trúverðugar á alla vegu. Þróun sambandsins er ákaflega vel meðhöndluð og Zwick misstígur sig aldrei með að færa tóninn úr léttu yfir í alvarlegt.

Fyrri helmingur myndarinnar sýnir þetta klassíska “honeymoon” stig hjá pörum/bólfélögum þar sem losti og líkamleg hrifning er allsráðandi, og myndin strikar sterkt undir þetta stig með því að gefa okkur óvenjulega mikið af kynlífs- og nektarsenum. Í fyrstu virkar þessi áhersla fremur teygð og tilgangslaus (og ég segi þetta sem einhver sem fær aldrei nóg af brjóstunum á Anne Hathaway) en þegar maður sér hversu mikið þetta fer minnkandi í seinni hlutanum þá finnur maður ennþá meira fyrir spennunni sem myndast í sambandinu á þeim tímapunkti. Mjög traust endurspeglun og um leið og alvöru dramað byrjar fór ég að finna til með báðum persónunum í stað þess að taka djúpt andvarp, eins og ég hélt ég að ég myndi gera. Fyrirgefðu að ég efaði þig, Hr. Zwick.

Helsti styrkleiki þessarar myndar er án efa samspil skjáparsins. Þau Jake Gyllenhaal og Anne Hathaway eru virkilega góð í sitthvoru lagi en saman eru þau æðisleg. Skarpir kvikmyndaunnendur ættu að muna eftir því að þau léku einnig par í Brokeback Mountain sem einnig sýndi brjálaða umhyggju fyrst en byrjaði svo að fjarlægjast. Karlmenn sem fylgjast með Gyllenhaal eiga eftir að fyllast af mikilli öfund þegar þeir sjá hversu sjarmerandi kvennagull maðurinn er. Hathaway fær að vísu örlítið kröfuharðara hlutverk og fannst mér hún e.t.v. jafn sterk hér og í hinni ofmetnu Rachel Getting Married. En bæði tvö skila sínu frábærlega, í léttum eða alvarlegum senum og allt þar á milli. Neistann vantar svo sannarlega ekki (né hugrekkið til að koma nakin fram í fjölmörgum senum) og hitinn er það mikill að maður spyr sig hvort þau hafi sofið saman í raun á milli taka.

Skemmtilegar samræður einkenna síðan handrit sem er almennt vel skrifað þótt það sé fjarri því að vera frábært. Aukapersónurnar voru t.d. ekki upp á marga fiska og mér þykir í raun hundfúlt að fullyrða það að klisjurnar í sögunni fóru örlítið í mig, en þá aðallega vegna þess að myndin var svo fersk og öðruvísi upp að vissum tímapunkti. Mér hefði verið skítsama um þetta hefði ég verið að horfa á talsvert staðlaðri kanafroðu en hér hefur þetta meiri áhrif. Smá meiri vinna á handritið hefði getað styrkt myndina helling og jafnvel gert hana ógleymanlega. Það hefði alveg mátt skera smá fitu af lengdinni (senan þar sem Gyllenhaal drífir sér til læknis eftir threesome-ið (sem við fengum aldrei að sjá!!) þjónaði t.d. engum spes tilgangi) og byggja söguna þannig upp að hún væri ekki alveg svona fyrirsjáanleg. Mér leið líka eins og ádeilan á lyfjaiðnaðinn hefði getað verið mun beittari, þar sem hún spilar áberandi stóran þátt í sögunni.

Love & Other Drugs mun ábyggilega falla misvel í kramið hjá fólki, sérstaklega þeim sem eiga von á einhverju mýkra. Kannski er þá betra fyrir þau að sjá No Strings Attached í staðinn. Mjög svipuð mynd nema það vantar allt kryddið sem hér að finna. Sjálfur gæti ég aldrei komist hjá því að mæla með mynd sem er svona öðruvísi, hreinskilin, heillandi, sorgleg og mestmegnis væmnislaus. Leikararnir gera líka bara svo margt fyrir hana og það sakar ekki að hafa eins mikla sál og þessi mynd gerir.

Mig hálfpartinn langar að gefa henni áttu en ég læt háa sjöu duga ásamt Caps Lock-skilaboðum sem segja GEFÐU HENNI SÉNS OG SJÁÐU HANA! Hún gæti nefnilega komið þér á óvart líka. Og í guðanna bænum ekki einungis googla nektarsenurnar með Hathaway. Horfðu á alla myndina og líttu á júllurnar sem bónus.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

21.10.2015

Jack Reacher 2 fær nafn

Tökur eru hafnar á Jack Reacher mynd númer 2, en hún hefur fengið nafnið Jack Reacher: Never Go Back. Í aðalhlutverki er sem fyrr Tom Cruise ( Mission: Impossible myndirnar, Edge of Tomorrow) og leikstjóri er Edward Zwick (T...

02.03.2011

Myndir mánaðarins: Marsblaðið komið út

Þá er marsblað Mynda mánaðarins komið út, númer 206 (hvorki meira né minna) frá upphafi og númer 14 síðan samstarf þess og vefsins Kvikmyndir.is hófst. Í nýjasta blaðinu er að venju að finna kynningar á öllu...

17.01.2011

Golden Globe sigurvegarar - í beinni!

Kvikmyndir.is vakir að sjálfsögðu fram á nóttina og fylgist með Golden Globe verðlaunahátíðinni. Að þessu sinni er það Ricky Gervais sem er kynnir, en hér fyrir neðan má sjá allar þær tilnefningar sem við koma kvikmyndum og ...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn