Algjör Sveppi enn vinsælust á Íslandi

Vinsældir þrívíddarævintýramyndarinnar íslensku, Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið, virðast engan endi ætla að taka. Þriðju helgina í röð er hún aðsóknarmest allra mynda á Íslandi og slær burt keppinautana eins og lítilvægar flugur. Nú um helgina fóru tæplega 5.000 manns á Sveppa og félaga, sem þætti góð frumsýningarhelgi á flestum myndum. Eru alls yfir 25.000 manns búnir að sjá myndina, sem kemur henni í 9. sæti yfir aðsóknarmestu myndir sem frumsýndar hafa verið á þessu ári.

Í öðru sæti var teiknimyndin Despicable Me með um helminginn af þeirri aðsókn og í næstu tveimur sætum voru tvær nýjar myndir, Wall Street: Money Never Sleeps (sem var númer 1 í Bandaríkjunum) með um 1.700 áhorfendur og Piranha 3D með rúma 1.300 áhorfendur.

Þriðja nýja myndin, yfirnáttúrulega hasarmyndin Solomon Kane, þurfti að sætta sig við áttunda sætið, fyrir neðan Going The Distance (sem var aðsóknarhæst yfir virku dagana fjóra), Sumarlandið og The Other Guys. Sumarlandið byrjaði rólega um síðustu helgi, en jók aðsóknina töluvert í vikunni, sem bendir til þess að hún sé að spyrjast mjög vel út. Step Up 3D og Resident Evil: Afterlife fylltu svo út í topp 10-listann.

Inception féll af topp 10-listanum eftir 9 vikur þar, en heldur áfram að nálgast 60.000 áhorfenda markið, og er langvinsælasta mynd þessa árs (Bjarnfreðarson og Avatar voru frumsýndar fyrir áramót) á undan Toy Story 3, sem er komin í 52.000 áhorfendur og er enn í sýningu.

Um næstu helgi munu rómantíska gamandramað Eat Pray Love og farsinn Dinner for Schmucks reyna að varpa Sveppa, Villa og Góa af toppnum, auk þess sem íslenska myndin Brim verður frumsýnd á RIFF og sett í almennar sýningar í kjölfarið. Á einhver þeirra séns á fyrsta sætinu?

-Erlingur Grétar