Harry Potter með stærstu frumsýningarhelgi ársins

Það kemur nákvæmlega engum á óvart að Harry Potter and the Deathly Hallows – Part I hafi náð toppsætinu næsta örugglega um helgina í íslenskum bíóum, en á leiðinni þangað náði Harry að slá met yfir stærstu frumsýningarhelgi ársins. Alls fóru 12.176 áhorfendur að sjá næstsíðasta kaflann um ævintýri Harry, Hermione, Rons og Voldemort á Íslandi, og slógu þar með met hinnar íslensku Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið, sem dró tæpa 10.400 áhorfendur í bíó í upphafi september.

Fylgdi myndin því eftir gengi sínu í Bandaríkjunum, þar sem hún á nú einnig stærstu frumsýningarhelgi ársins þeim megin Atlantshafsins. Miðað við dóma og viðtökur áhorfenda er nokkuð öruggt að hún verður með allra vinsælustu myndum ársins og mun mögulega gera atlögu að efstu tveimur myndum ársins, Inception og Toy Story 3, sem náðu tæpum 60.000 áhorfendum í bíó hvor.

Í öðru sæti um helgina var flippmyndin Jackass 3D með tæplega 2.300 áhorfendur, en alls hafa 11.600 manns lagt leið sína að sjá Asnakjálkana leika „listir“ sínar. Í þrívídd, að sjálfsögðu. Due Date seig niður í þriðja sætið með rúma 1.600 áhorfendur og er nú alveg við 20.000 áhorfenda múrinn.

Sci-Fi-tryllirinn Skyline, sem hefur fengið vægast sagt blendna dóma, náði svo fjórða sætinu, en um 1.400 manns fóru á þá tæknibrelluveislu um helgina.

Ekki er líklegt að nokkur muni ógna Harry í fyrsta sætinu um næstu helgi, en þá munu gamanmyndin You Again, spennumyndin The Next Three Days, jólateiknimyndin Niko og leiðin til stjarnanna og nýjasta mynd meistarans Alejandro Amenabar, Agora, leggja innreið sína í íslensk kvikmyndahús. Hverju eruð þið spenntust fyrir að sjá?

-Erlingur Grétar