Vill verða grjótharður

Það er alltaf tilhlökkunarefni (eða oftast) að sjá nýja mynd með gamanleikaranum Will Ferrell, þó myndirnar séu vissulega orðnar nokkuð margar og misgóðar.

Ferrel á nú í viðræðum um að leika í myndinni Get Hard ásamt Kevin Hart.

Ef Ferrell skrifar undir mun hann leika nördalegan starfsmann í fjárfestingarbanka sem er svikinn af ríkum viðskiptavini sínum og látinn taka á sig sök fyrir stórkostleg fjársvik. Þegar hann nær ekki að koma sér undan málinu, þá ákveður hann að ráða mann af götunni, til að þjálfa sig upp í að verða meira hörkutól, áður en hann þarf að mæta í grjótið eftir einn mánuð til að afplána refsingu.

Þetta hljómar eins og sniðið fyrir Ferrel og auðvelt að sjá hann fyrir sér í þessum aðstæðum.

Ferrell er á fullu núna við að skrifa og undirbúa framhaldið af Anchorman.  Kevin Hart er nýbúinn að leika í endurgerð About Last Night og leikur einnig í Seth Rogen myndinni The End Of The World.